Einar Jónsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Einar Jónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Fram var gestur Handkastsins á sunnudagskvöldið þar sem Handkastið hélt áfram að hita upp fyrir Evrópumótið og gerði upp æfingaleikina sem fóru fram í París um helgina hjá strákunum okkar. Einar Jónsson var spurður út í það, hvaða væntingar hann fari með inn í Evrópumótið sem stuðningsmaður íslenska landsliðsins? ,,Ég er alltaf bjartsýnn og hef verið það fyrir síðustu mót. Mér finnst allt til staðar ef maður getur fundið eitthvað varðandi leikmannahópinn þá hefði ég auðvitað viljað hafa Þorstein Leó heilann. Mér finnst það eina sem eitthvað verulega skiptir máli.” ,,Við erum með Ómar og Gísla Þorgeir, hvenær voru þeir báðir upp á sitt besta á sama stórmótinu? Ómar var ekki í fyrra og Gísli var þar á undan búinn að vera í brasi. Við erum með Janus að spila á fullu og Haukur er stoðsendingahæstur í þýsku úrvalsdeildinni. Ég veit ekki hvað menn vilja varðandi væntingar? Leiðin er þokkalega þægilegur og riðilinn er fínn. Við eigum að fara í gegnum hann. Síðan er þetta einn leikur í milliriðli sem verður úrslitaleikur, það er leikurinn gegn 2.sætinu í riðlunum hjá Króatíu og Svíþjóð,” sagði Einar Jónsson meðal annars í þættinum. En hann viðurkennir að hann hafi áhyggjur af einum hlut sem er gríðarlega mikilvægur þegar upp er staðið. ,,Einu áhyggjurnar mína eru þær hvort þeir séu nægilega stórir karakterar til að klára þá leiki sem skipta máli. Mér hefur fundist það vera vandamálið. Þeir renna á rassgatið gegn Króatíu í fyrra í leik sem mátti tapa með þremur. Þeir féllu hrikalega á því prófi og í rauninni undanfarin ár hafa þeir fallið á stóra prófinu. Mínar áhyggjur eru fyrst og fremst þær að þetta sé ekki nægilega miklir karakterar.” ,,Varðandi handboltaleg gæði, þetta snýst ekki um það.”

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.