David Spath (SVEN SIMON / dpa Picture-Alliance via AFP)
Miklar hræringar hafa verið á markmannamarkaðnum í þýsku handboltadeildinni og jafnvel reyndustu menn í bransanum lýsa sig hissa á umfangi breytinganna. Þegar árið 2026 gengur í garð eftir rúmlegan mánuð lítur út fyrir að mörg af toppliðum þýsku úrvalsdeildarinnar séu enn ekki með markmannsmál sín á hreinu fyrir næsta tímabil. Það hefur leitt til þess að mörg félög eru að huga að markmannsstöðunni fyrir næsta tímabil þar sem margir af topp markmönnunum eru orðaðir við fleiri en eitt félag fyrir næsta tímabil. Félög á borð við Füchse Berlin, Magdeburg, Melsungen, Gummersbach, Leipzig, Stuttgart, Erlangen og Rhein-Neckar Löwen eru öll í þeirri stöðu að markmannsmál þeirra er enn í óvissu - eitthvað sem sérfræðingar ytra segja fordæmalausa stöðu á leikmannamarkaðnum. „Ég er ánægður með að okkar markverðir eru í samningi til ársins 2027. Þetta er mjög áhugaverð staða hjá mörgum félögum, því þetta er ein mikilvægasta staða hvers liðs,“ segir Sven-Sören Christophersen, fyrrverandi landsliðsmaður og nú yfirmaður íþróttamála hjá TSV Hannover-Burgdorf, í viðtali við Sport Bild. Magdeburg og Gummersbach berjast um króatíska landsliðsmarkvörðinn Eitt stærsta nafnið á markaðnum er króatíski landsliðsmarkvörðurinn Dominik Kuzmanovic og leikmaður Gummersbach í dag, sem bæði SC Magdeburgog VfL Gummersbach berjast nú um að semja við. Þjálfari Magdeburg, Bennet Wiegert, vill fá hann til sín sumarið 2026, en verðmiðinn veldur deilum. Gummersbach vill fá um 800 þúsund evrur, á meðan þýskir fjölmiðlar segja Magdeburg aðeins tilbúið að greiða um 600 þúsund evrur. Á sama tíma bendir allt til þess að Magdeburg þurfi að fá til sín nýjan markmann næsta sumar þar sem Svisslendingurinn Nikola Portner er talinn vera á leið til Pick Szeged í Ungverjalandi, eftir tímabilið. Lemgo búið að tryggja sig – en Leipzig í vanda Í Lemgo er markvarðarstaðan þegar frágengin. Félagið hefur samið við ítalska landsliðsmarkvörðinn DomenicoEbner til ársins 2028. Það skilur Leipzig eftir í vandræðum þar sem Ebner er markvörður liðsins í dag og er staða liðsins í deildinni það slæm að erfitt reynist að lokka nýjan markmann til félagsins þar sem óvíst er hvort liðið leiki í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Spurningarmerki hjá Melsungen – Simic hefur misst 14 kíló Hjá MT Melsungen vonaðist félagið til að Ungverjinn Kristóf Palasics markvörður félagsins taki næsta skref, en félagið hefur engu að síður leitað lausna á markaðnum hingað til án árangurs. Eitt lykilatriði er hvenær Nebojsa Simic snýr aftur eftir alvarlegt hnémeiðsli. Til að bæta endurhæfinguna hefur Simic lést um 14 kíló. „Ég vildi draga úr álaginu á líkamann og flýta endurhæfingunni,“ segir hann. Berlin, Erlangen og Stuttgart á faraldsfæti í leit að lausnum Hjá ríkjandi meisturum Füchse Berlin rennur samningur Dejan Milosavljev út árið 2026 og hefur orðrómur verið um möguleg félagaskipti hans til pólska stórliðsins Kielce síðustu vikur. Berlin hefur hins vegar augun á franska markverðinum Charles Bolzinger sem mögulegum arftaka. Í Erlangen renna samningar beggja markvarða, Dario Quenstedt og Khalifa Ghedbane út og er félagið þegar farið af stað í leit af nýjum markvörðum. Í Stuttgart hafa misjafnar frammistöður Miljan Vujovic og Daniel Rebmann knúið félagið til að bregðast við. Rebmann fer til Balingen-Weilstetten sem er í harðri toppbaráttu í þýsku B-deildinni, en Mateusz Kornecki gengur í raðir Stuttgart næsta sumar. Löwen öruggir með Späth – en þurfa nýjan félaga með honum Rhein-Neckar Löwen eru í örlítið annarri stöðu en flest önnur lið. Þar er framtíðarmarkmaður liðsins, David Späth, á samningi til 2029. Hins vegar rennur samningur markvarðarins Mike Jensen út í sumar, og þarf félagið því að taka mikilvægar ákvarðanir um næsta skref.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.