Niels Versteijnen - lemgo (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Það er ekki hægt að segja annað en að Lemgo sé spútník lið þýsku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið en liðið situr í 2.sæti deildarinnar með 25 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Magdeburg þegar bæði lið hafa leikið sextán leiki á tímabilinu. Flensburg og Kiel eru tveimur stigum á eftir Lemgo og eiga leik til góða og Fuchse Berlín eru þremur stigum á eftir Lemgo en Flensburg og Fuchse Berlín mætast í kvöld. Lemgo undir stjórn Florian Kehrmann hafa nú unnið fimm leiki í röð í þýsku úrvalsdeildinni og þar á meðal bæði Fuchse Berlín og Flensburg. Báða leikina unnu þeir með einu marki, 34-33. Eftir tap í fyrsta leik tímabilsins lék liðið átta leiki í röð án þess að tapa og gerðu eitt jafntefli. Í kjölfarið komu tveir tapleikir í röð gegn Hannover Burgdorf og Melsungen en nú er liðið búið að leika fimm leiki í röð án þess að misstíga sig. Lemgo vann í gærkvöldi Göppingen á útivelli með sjö mörkum, 33-26 en liðið fær Kiel í heimsókn næstkomandi sunnudag. Tim Suton er markahæstur í liði Lemgo með 102 mörk og næstur kemur Hollendingurinn, Niels Versteijnen. Austurríkismaðurinn, Lukas Hutecek hefur skorað 52 mörk á tímabilinu. Á síðustu leiktíð endaði Lemgo í 8.sæti deildarinnar með 39 stig en liðið er einungis fjórtán stigum frá því að ná þeim stigafjölda.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.