Ómar Ingi Magnússon (Sævar Jónasson)
Ómar Ingi Magnússon er ásamt strákunum í íslenska landsliðinu í óða önn að undirbúa sig fyrir Evrópumótið sem hefst 15. janúar. Fyrsti leikur Íslands á mótinu fer fram 16. janúar þegar Ísland mætir Ítalíu. Ómar Ingi missti af heimsmeistaramótinu í Króatíu fyrir ári síðan vegna meiðsla. Hann er hinsvegar á góðum stað í dag og er orðinn fyrirliði íslenska landsliðsins eftir að Aron Pálmarsson lagði skóna á hilluna á síðasta ári. ,,Skrokkurinn er góður og allt í standi og ég er frekar ferskur,” sagði Ómar sem viðurkennir að það hafi verið erfitt að fylgjast með liðinu á síðasta stórmóti. ,,Það er bara ekki gaman að vera ekki með þegar þú ert vanur að vera að taka þátt. Það er öllu skemmtilegra að vera með og það er mikil tilhlökkun að vera með núna.” Ómar Ingi var spurður út í tap landsliðsins gegn Króatíu á síðasta stórmóti sem reyndist dýrt. Þar fór 5-1 vörn Króata illa með íslenska landsliðið en Ísland gæti mætt Króatíu í milliriðli mótsins. ,,Við erum aðalega að undirbúa okkur fyrir riðilinn en við munum undirbúa okkur undir allt. Við verðum klárir með svör þegar þess þarf.” Elvar Örn Jónsson gekk í raðir Magdeburgar í sumar frá Melsungen og leika því þrír Íslendingar með Magdeburg í dag. Elvar Örn, Ómar Ingi og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Ómar var spurður út í muninum að spila með Magdeburg og íslenska landsliðinu og hvenær íslenskir áhorfendur fá að sjá Magdeburg-Ómar Inga spila með íslenska landsliðinu? ,,Þetta eru tvö öðruvísi lið. Þó svo að við, Gísli og Elvar Örn séum þarna. Áherslan er ekki alveg eins en að einhverjuleiti svipaðar. Við notum alveg fullt líkt á báðum stöðum. Það gæti alveg smollið eitthvað skemmtilegt.” Fyrsti leikur Íslands á EM fer fram næstkomandi föstudag klukkan 17:00 þegar Ísland mætir Ítalíu í Kristianstad í Svíþjóð. Handkastið verður á svæðinu og gerir upp alla leiki Íslands í hlaðvarpsþætti sínum strax að leikjum loknum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.