Aron Valur Gunnlaugsson (Stjarnan handbolti)
Stjarnan og Afturelding hafa komist að samkomulagi um að Aron Valur Gunnlaugsson leiki með Stjörnunni í Olís-deild karla eftir áramót á láni. Handkastið greindi frá því fyrr á árinu að Stjarnan væri á höttunum á eftir Aroni Vali sem leikið hefur með Hvíta Riddaranum í Grill66-deildinni á þessari leiktíð. ,,Aron er ungur að árum, rétthentur og spilar sem skytta og miðjumaður, hefur spilað með Hvíta Riddaranum í Grill 66 deildinni á núverandi tímabili, þar sem hann hefur skorað 83 mörk í 13 leikjum," segir í tilkynningunni frá Stjörnunni. Aron Valur er ætlað að styrkja leikmannahóp Stjörnunnar fyrir átökin eftir áramót en Stjarnan losaði sig við Ungverjann, Rea Barnabás eftir síðasta leik sinn fyrir áramót og þá yfirgef Ólafur Brim Stefánsson liðið og gekk í raðir Fasano í Ítalíu. Stjarnan er í 8.sæti Olís-deildar karla eftir 15 umferðir en liðið mætir Þór í fyrstu umferðinni á nýju ári í byrjun febrúar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.