Mál Ólafs Víðis hefur ekki komið á borð til stjórnar HSÍ
HK)

Ólafur Víðir Ólafsson (HK)

Mikil umræða hefur skapast í handboltahreyfingunni hér heima eftir að HK tilkynnti Ólaf Víði Ólafsson sem yfirþjálfara handknattleiksdeildar HK í gærkvöldi. Margir hafa haft samband við Handkastið og tjáð óánægju sína með þá staðreynd að starfandi starfsmaður HSÍ ráði sig sem yfirþjálfara hjá einu af aðildarfélögum ÍSÍ.

Ólafur Víðir var tilkynntur sem yfirþjálfari HK og er samningur hans við félagið til eins árs. HK tilkynnti þetta á samfélagsmiðli sínum í gær.

,,Óli Víðir, eins og hann er best þekktur, er uppalinn HK-ingur sem þekkir félagið utan sem að innan. Með mikla reynslu, metnað og ástríðu fyrir handboltanum er hann tilbúinn að stíga inn í lykilhlutverk og leiða þróun handboltans hjá HK," segir í tilkynningunni frá HK.

Í tilkynningunni segir að Ólafur taki til starfa strax og er spenntur að vinna áfram með leikmönnum, þjálfurum og allri HK-fjölskyldunni.

Athygli vekur að Ólafur Víðir sem er starfandi starfsmaður mótanefndar HSÍ í fullu starfi taki að sér yfirþjálfara starf hjá HK þar sem árekstrar gætu auðveldlega komið upp þar sem HSÍ starfar fyrir öll félög í landinu.

Handkastið hefur orðið var við mikla umræðu sem skapaðist eftir þessa ráðningu. Sumir viðmælendur Handkastsins eru undrandi á að þetta hafi verið samþykkt af HSÍ og telja það óhjákvæmilegt að upp komi mál sem tengjast HK á annað borð sem muni rata á borð Ólafs Víðis sem starfsmann HSI. Velta viðmælendur Handkastsins fyrir sér hvort og hvernig vinnuverklagið verði í þeim aðstæðum.

Handkastið hafði samband við Jón Halldórsson formann HSÍ sem sagði að þetta mál hafi ekki komið á borð HSÍ hingað til en muni skoða þetta mál nú í kjölfar frétta Handkastsins.

,,Við munum setjast niður og ræða þetta innanbúðar hjá okkur auk þess sem ég stefni á að funda með Ólaf Víði í kjölfarið og ræða við hann um vinnuverklag og koma í vegfyrir að árekstrar komi upp," sagði Jón Halldórsson í samtali við Handkastið.

Ólafur Víðir var þjálfari 3.flokks karla hjá HK á síðustu leiktíð og eins og kemur fram í tilkynningu félagsins mikill HK-ingur.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top