Stjarnan (Sævar Jónasson)
Handboltatímabilið hófst í kvöld þegar Meistarar meistaranna fór fram í Úlfarsárdal en þar mættust Fram og Stjarnan. Leikurinn markar upphaf tímabilsins í handboltanum. Jafnræði var með liðunum í kvöld og skiptust þau á að hafa forystu í fyrri hálfleik. Framarar náðu tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks en Stjörnumenn náðu að jafna í 15-15 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik, jafnt var nánast á öllum tölum. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum fóru leikar að æsast. Stjörnumenn fá tækifæri í tvígang til að komast tveim mörkum yfir í stöðunni 27-28 en Breki Hrafn markmaður Fram gerði sér lítið fyrir og varði tvö víti í röð. Benedikt Marinó kom Stjörnunni yfir 28-29 þegar 20 sekúndur voru eftir. Einar Jónsson þjálfari Fram tók þá leikhlé og stillti upp í lokasókn til að freista þess að jafna leikinn. Marel Baldvinsson átti lokaskot leiksins en Adam Thorstensen varði skotið og tryggði Stjörnunni fyrsta titil vetrarins. Markaskorun Fram: Dánjal Ragnarsson 7 mörk, Marel Baldvinsson 5, Eiður Rafn Valsson 4, Erlendur Guðmundsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Rúnar Kárason 2, Dagur Fannar Möller 1. Varin Skot: Breki Hrafn Árnason 11 varin (31%), Arnór Máni Daðason 1 (20%) Markaskorun Stjörnunnar: Gauti Gunnarsson 6 mörk, Ísak Logi Einarsson 5, Hans Jörgen Ólafsson 4, Rea Barnabás 4, Pétur Árni Hauksson 3, Benedikt Marinó Herdísarson 2, Jóhannes Björgvin 2, Jóel Bernburg 1, Patrekur Þór Öfjörð 1, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Varin skot: Adam Thorstensen 13 varin (31,7%)
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.