Frá leiknum í gær. (Sævar Jónasson)
Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur HSÍ vísað ummælum Einars Jónssonar þjálfara Fram eftir tap liðsins gegn Stjörnunni í gærkvöldi í Meistarakeppni HSÍ til aganefndar. Þar sagði Einar til að mynda: „Þetta var frábær leikur, margt virkilega jákvætt en Stjarnan voru heilt yfir betri aðilinn í kvöld og voru leikstjórar í þessum leikhúsi fáranleikans og stjórnuðu leiknum og trúðasýningunni meira og minna allan leikinn," í samtali við Handkastið. Í viðtali við Handbolta.is sagði hann einnig: „Það var verið að berja leikmenn inni á leikvellinum off ball og menn bara sjá það ekki auk þess sem mönnum var skellt í gólfið. Ég hélt á köflum að ég væri kominn til Vestmannaeyja. En ef fólk hefur gaman að svona leikhúsi þá verður stuð og stemning í vetur og trúðasýning í bónus,“ sagði Einar. Eins og Handkastið sagði frá í morgun var enginn eftirlitsmaður á leiknum en dómarar leiks voru þeir Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson. Stjarnan vann leikinn með einu marki 29-28.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.