Einar Jónsson ((Eyjólfur Garðarsson)
Það kom Einari Jónssyni mikið á óvart þegar honum var tilkynnt í gær að ummæli hans eftir leik Fram og Stjörnunnar um Meistara Meistranna á fimmtudagskvöldið hefðu verið tekin inn á borð aganefndar HSÍ. Einar kallaði leikinn leikhús fáranleikans og algjöra trúðasýningu en skilur þó ekki hvernig HSÍ fær það út að hann hafi verið að gera lítið um dómurum leiksins þeim Árna Snæ Magnússyni og Þorvari Bjarma Harðarsyni. Handkastið heyrði í Einari í gærkvöldi og spurði hann hver hans fyrstu viðbrögð við þessu hefðu verið „Mér finnst þetta algjörlega galið, að ásaka mig um að vega að dómurunum leiksins. Mér fannst ég ekki vega neitt að þeim, ég kallaði eftir því að þeir myndu taka harðar á hrindinum og almennum stælum í leikmönnum, þess utan fannst mér dómararnir eiga fínan leik.“ Athygli vakti að enginn eftirlitsmaður var á leiknum í gær til að skakkast í leikinn og fannast Einari það einkennilegt. „Það er náttúrulega sirkusinn í þessu að HSÍ sendi ekki eftirlitsmann á þennan leik, umgjörð leiksins er nánast eins og æfingarleikur á sterum og þegar öllu er á botninn hvolft þá er verið að keppa um einn af fjórum titlum tímabilsins. Mitt lið kom vissulega líka að skipulagningu leiksins og ætla ég ekkert að fría þá neinni ábyrgð. Maður hefði samt haldið það að HSÍ hefði sett aðeins meiri metnað í þennan leik en raun bar vitni.“ Einar telur að þetta boði ekki gott fyrir veturinn ef ummæli sem þessi endi inná borði aganefndar þar sem þeir séu að gefa sér það að hann sé að tala illa um dómara leiksins. „Ef þetta verður línan í vetur óttast ég að viðtöl vetrarins verði dead boring fyrir fjölmiðlamenn landsins og ef þjálfarar geti ekki sýnt smá tilfinningar í viðtölum þá mun enginn nenna að lesa þessi viðtöl.“ Ný stjórn HSÍ tók til starfa í vor og vonast Einar til að þessi viðkvæmni muni eldast fljótt af þeim „Ef stjórn HSÍ er svona ofboðslega viðkvæm fyrir því að viðtölin séu aðeins öðruvísi en normið þá held ég við séum komin á rangan stað, en það er ekki eins og markaðsstarf og útbreiðsla HSÍ sé upp á marga fiska hvort sem er, kannski vilja menn að þetta séu þurrt og leiðinlegt.“
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.