(Egill Bjarni Friðjónsson)
Fimm leikmenn KA hafa bæst við meiðsalistann hjá liðinu en áður hafði Handkastið greint frá því að Einar Rafn Eiðsson og Arnór Ísak Haddson væru að glíma við langvarandi meiðsli. Þetta staðfesti Andri Snær Stefánsson þjálfari KA í samtali við Handkastið. Þar greindi hann frá því að Aron Daði Stefánsson væri puttabrotinn og yrði frá næstu 3-4 vikur. Ingvar Heiðmann Birgisson er að glíma við hnémeiðsli en alvarleiki meiðslanna liggur ekki fyrir að svo stöddu en Ingvar fór í myndatöku í gær og þá skýrist hversu alvarleg meiðslin eru. Þá varð Patrekur Stefánsson fyrir meiðslum í öðrum af tveimur leikjum KA gegn Þór í KG Sendibílamótinu sem fram fór á Akureyri um helgina en þar unnu KA báða leiki liðanna. Andri Snær gat ekki sagt til um alvarleika meiðslanna hjá Patreki. Úlfar Guðbjargarson og Svavar Ingi Sigmundsson markmenn liðsins eru einnig báðir í meiðslum. ,,Við fengum virkilega flottan markmann í honum Guðmundi Helga sem var fluttur norður. Hann og Bruno eru búnir að standa vaktina í fyrstu æfingaleikjunum. Við erum á fínu róli og við erum spenntir fyrir áframhaldandi undirbúning fyrir Íslandsmótið," sagði Andri Snær í samtali við Handkastið. Rúmlega tvær vikur eru þangað til að Olís-deild karla fer af stað en KA heimsækir nýliða Selfoss í 1.umferðinni laugardaginn 6.september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.