Jóhanna Margrét Sigurðardóttir (Haukar)
Frammistaða Jóhönnu Margrétar Sigurðardóttur var rædd í Handboltahöllinni í Sjónvarpi Símans í gærkvöldi í opinni dagskrá. Þar var farið yfir leik Jóhönnu Margrétar í sigri Hauka á Val í 2.umferð Olís-deildar kvenna. Þar fór Jóhanna Margrét á kostum en hún var valin Sage by Saga Sif leikmaður 2.umferðar hér á Handkastinu og fær að launum gjafabréf í versluninni. Það sem vakti athygli þeirra í Handboltahöllinni í gær er að Jóhanna Margrét er ekki í landsliðshóp Arnars Péturssonar sem æfir nú í vikunni og leikur síðan einn æfingaleik gegn Danmörku ytra næstu helgi. Einar Ingi Hrafnsson skilur ekki þá ákvörðun að Arnar Pétursson og Óskar Bjarni Óskarsson landsliðsþjálfarar Íslands hafi ekki valið stærri hóp fyrir verkefnið enda er liðið að undirbúa sig fyrir stórmót síðar á árinu. ,,Hann velur 16-17 manna hóp. Hann velur Andreu sem er bara eðlilegt hún er að spila erlendis og er að spila vel. Síðan ákveður hann að vera frekar með Ölfu framyfir Jóhönnu Margréti. Mín skoðun er sú að hann á auðvitað að taka þær báðar, þetta er æfingarvika. Þetta endar vissulega með einum æfingaleik í Danmörku um helgina en vikan er löng. Vertu bara með fleiri leikmenn á gólfinu," sagði Einar Ingi í Handboltahöllinni og hélt áfram. ,,Mér finnst Jóhanna Margrét geggjuð og ég hefði viljað að hún væri í hópnum líka." Jóhanna Margrét skoraði 12 mörk í sigri Hauka á Val á laugardaginn en hún gekk í raðir Hauka eftir veru í Svíþjóð síðustu ár. ,,Hún hefur reynsluna úr alþjóðlegum bolta og hefur hæðina og tikkar í mjög mörg box ef ekki öll. Það verður gaman að sjá hana fylgja þessari frammistöðu eftir," bætti Vignir Stefánsson við í umræðuna. Umfjöllun Handboltahallarinnar er hægt að horfa á hér að neðan.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.