bolti fans handbolti (Raggi Óla)
Það vakti athygli margra að leikur Hauka og Vals í 5.umferð Olís-deildar karla var ekki sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í síðustu viku eins og auglýst hafði verið. Heldur var leikur Aftureldingar og Fram sýndur í glæsilegri útsendingu í opinni dagskrá en sá leikur átti að hefjast klukkan 19:00 en hófst 19:15. Leikur Hauka og Vals var þess í stað sýndur í Handboltapassanum klukkan 19:30. Handkastið fór á stúfana og reyndi að fá útskýringar á því hvað olli breytingunum. Það lá ekki á svörum frá þeim aðilum sem Handkastið hafði samband við. Ástæðan var einföld. Starfsfólk Kukl sem sér um útsendingarnar af handboltaleikjunum sem sýndir eru í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans mættu í vitlaust íþróttahús. Starfsfólk Kukl var nefnilega mætt í Mosfellsbæinn en ekki á Ásvelli Þá voru góð ráð dýr og á örstuttum tíma var ákveðið að sýna frekar frá leik Aftureldingar og Fram í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans en seinka þurfti leiknum um 15 mínútur svo öll tæknitólk yrði vel tengd og allt yrði klárt áður en leikurinn færi af stað. Í kvöld fer fram leikur Vals og Aftureldingar í 6.umferð Olís-deildar karla og á sá leikur að vera sýndur í opinni dagskrá. Nú er bara að krossleggja fingur og vona að starfsfólk Kukl mæti í rétt íþróttahús og allir leikir kvöldsins geti farið fram á tilsettum tíma. Leikir kvöldsins í 6.umferð Olís-deildar karla:
18:00 Selfoss - Stjarnan
18:30 FH - Þór
19:30 Valur - Afturelding

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.