Spekingar spá: FH – Haukar
Sævar Jónasson)

Gunnar Magnússon (Sævar Jónasson)

Það ríkir heldur betur eftirvænting fyrir stórleik kvöldsins í Olís-deild karla þegar topplið Hauka heimsækir nágranna sín í FH heim í 8.umferð deildarinnar.

Handkastið hefur hitað vel upp fyrir leikinn sem hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans.

Handkastið hefur nú fengið nokkra sófasérfræðinga til að spá fyrir um leikinn:

Stefán Rafn Sigurmannsson, fasteignasali og fyrrum handboltakempa. Fyrum leikmaður Hauka, Álaborgar, Rhein-Neckar Lowen og Pick Szeged auk íslenska landsliðsins:
FH - Haukar 27-32

Þetta verður skemmtilegur leikur eins og allir Hauka - FH leikir hafa verið í gegnum tíðina það, er alltaf extra við þessa leiki! Þetta eru tvö afar spennandi lið að mínu mati með mikið af ungum, góðum leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér. Mér finnst gaman að sjá hvað það hafa margir komið inn í þetta, núna í fyrra og á þessu tímabili, ef ég horfi á mitt lið Haukana þá fengum við nýjan þjálfara fyrir þetta tímabil eftir góð ár með Ásgeiri. Gunnar er afar reynslumikill og mér finnst hann hafa verið að gera þetta rosalega vel, hann er að ná miklu útúr þessum strákum og er að ná að stýra þeim vel. Ég er spenntur fyrir tímabilinu þar sem deildin er opin eins og við erum búin að sjá á úrslitum síðustu leikja það er stutt á milli.

Mín spá fyrir leikinn er 27 - 32 fyrir Haukum.

Theodór Ingi Pálmason, endurskoðandi og fyrrum línumaður ÍH, Gróttu, Fjölnis, KR og FH:
FH - Haukar 28-31
Fyrsti leikurinn sem maður leitar eftir þegar leikjaniðurröðunin kemur út. El Clasico íslenska handboltans! 

Í fyrsta skipti í mörg ár (sennilega síðan ég var enn að spila með FH 2015/16) eru Haukarnir sigurstranglegri. Maður hefur ekki séð svona ferskleika í Haukunum í c.a. 10 ár og þeir virðast hafa fundið réttu blönduna loksins. FH hefur verið eins og jójó í vetur, sem er kannski eðlilegt miðað við mannabreytingar og að ungir spennandi strákar eru komnir í lykilhlutverk. FH hefur eiginlega unnið leikina sem maður bjóst við að þeir myndu tapa og tapað stigum í leikjum sem maður hélt að þeir myndu vinna ef sigurinn gegn Selfoss er undanskilinn.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér, en ég held að Haukarnir séu á töluvert betri stað í dag auk þess sem erfið helgi í Tyrklandi mun líklega sitja í mínum mönnum

Andri Berg Haraldsson, sérfræðingur Handkastsins og fyrrum handboltaleikmaður hér og þar:
FH - Haukar 22-21

FH hefur átt mjög misjafna leiki það sem af er vetri á meðan Haukarnir hafa verið að spila vel hingað til og eins og staðan er núna tel ég Haukana standa nokkuð framar. En eins og fólk veit þá hafa þessir leikir sjálfstætt líf og staðan í deildinni eða frammistaða síðustu leikja gefa oft ekki rétta mynd af því sem koma skal. Möguleikar FH liggja í því að vörn og markvarsla verði uppá sitt besta og þá tel ég góðar líkur á hagstæðum úrslitum fyrir þá. Á meðan Haukarnir þurfa að fylgja á eftir sínum góðu heildarframmistöðum á báðum endum vallarins í síðustu leikjum. Að því sögðu þá spái ég því að leikurinn endi 22-21 fyrir FH þar sem Símon Michael Guðjónsson skorar sigurmarkið þegar 3 sekúndur eru eftir.

Einar Ingi Hrafnsson, sérfræðingur Handkastsins og framkvæmdastjóri Aftureldingar:
FH - Haukar 29-27

Ég held að Haukar gætu lent í smá basli sóknarlega í kvöld, flæðið í sóknarleik og hraðaupphlaupum Hauka hefur verið ótrúlega gott í síðustu leikjum, en FH vörnin með háa bakverði og flata þrista gæti hentað Frey og Birki illa. Þannig að Skarpi þarf að stíga vel upp í kvöld og hraðaupphlaupin að gefa mörg ódýr mörk. En ég tel að þeir geri ekki nóg til að sigra sterka FH inga í fullum kaplakrika í kvöld, þar sem markvarsla heimamanna gerir gæfumuninn ásamt stórleik frá Garðari Sindra.

Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður og leikmaður Sporting og fyrrum leikmaður Hauka:
FH - Haukar 31-33


Haukar hafa verið stöðugir og góðir það sem af er og líta mjög vel út. FH hafa verið svolítið upp og niður upp á síðkastið. Hinsvegar býst ég við jöfnum leik sem endar á sigri Hauka.

Benedikt Grétarsson, sérfræðingur Handkastsins og faðir:
FH - Haukar 26-29

Sagan segir okkur að þessir leikir leita í jafnvægi, óháð stöðu liðanna í deildinni.

Þetta verður hnífjafnt í ca 50 mínútur en þá held ég að breiddin hjá Haukum ráði úrslitum. Evrópu-ferðalagið mun klárlega ekki hjálpa FH á þessum lokamínútum.

26-29, eitt rautt spjald og stemming í Krikanum.

Andri Már Eggertsson, fyrrum handboltakempa og frjálsíþróttamaður:
FH - Haukar 31-29

Þessi leikur mun alltaf leita í spennu sama þó gengi liðana hefur verið misjafnt. Það er eitthvað sem segir mér að Birkir Benediktsson minni á sig í hvítu og setji 4-5 slummur og verði örlagavaldur

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top