Garðar Ingi Sindrason (J.L.Long)
Stórleikur 8.umferðar í Olís-deild karla fer fram í Kaplakrika í kvöld þegar Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar eigast við. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Handkastið heyrði í hinum þrælefnilega leikmanni FH, Garðari Inga Sindrasyni og spurði hann aðeins út í gengi FH á tímabilinu og leiknum sem framundan er í kvöld. Garðar var fyrst spurður út í gengi FH-liðsins á tímabilinu og hvort það séu vonbrigði hvernig tímabilið hafi farið af stað hjá liðinu. ,,Það er kannski ekki hægt að tala um vonbrigði en við höfum ekki verið nægilega stöðugir. Það eru fullt af góðum hlutum en líka hlutir sem við vitum að við eigum að gera betur. Við erum að vinna vel í okkar leik og ég hef fulla trú á að við náum stöðugleika sem fyrst,” sagði Garðar Ingi. FH lék tvo leiki gegn tyrkneska liðinu Bursa Nilufer í 64-liða úrslitum Evrópubikarsins í Tyrklandi síðustu helgi þar sem FH datt úr leik eftir tveggja marka tap samanlagt. ,,Það eru einhverjir stífari en aðrir en ekkert meira en það. Við verðum klárir í leikinn í kvöld.” ,,Við mætum í alla leiki til að vinna og þessi leikur í kvöld er engin undantekning. En það er ekkert leyndarmál að sigur í Hafnarfjarðarslag gefur liðinu mikið. Þetta eru alltaf öðruvísi leikir og þetta eru skemmtilegustu leikirnir að spila,” sagði Garðar Ingi Sindrason leikmaður FH að lokum í samtali við Handkastið. FH er í 7.sæti Olís-deildarinnar með sjö stig en Haukar eru á toppi deildarinnar með 12 stig fyrir leikinn í kvöld. Leikir 8.umferðar: Föstudagur: Laugardagur:
Fimmtudagur:
18:30 Þór - Selfoss
19:00 Valur - ÍR
19:30 FH - Haukar
19:00 Stjarnan - Afturelding
14:30 HK - Fram
15:00 ÍBV - KA
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.