Alexandra Líf Arnarsdóttir Rut Jónsdóttir (Kristinn Steinn Traustason)
ÍR vann Hauka í annað sinn í vetur í 7.umferð Olís-deildar kvenna um helgina með fjórum mörkum 30-26. ÍR er í 2.-3.sæti deildarinnar eftir sigurinn með 10 stig að loknum sjö leikjum á meðan Haukar eru í fimmta sæti deildarinnar með einungis sjö stig og mæta Val í fyrsta leik 8.umferðarinnar í kvöld. Rætt var um gengi kvennaliðs Hauka í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram var gestur þáttarins. ,,Ég veit að það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir þér, en shit hvað Haukar voru lélegar,” sagði Stymmi klippari og bætti við: ,,Ég veit að það er erfitt að fylla skarð Elínar Klöru sem var að skora einhver 12 mörk í leik og með fullt af stoðsendingum en þær fengu Emblu Steindórsdóttur og Jóhönnu Margréti. Þetta var bara hugmynda snautt, aftur andlaust og engin markvarsla. Haukar ætluðu sér örugglega að vera næst besta lið landsins en þær eru langt frá því.” Einar Jónsson tók þá til máls og velti fyrir sér þeim orðum Stymma um að Haukar hafi ætlað sér að verða næst besta lið deildarinnar í vetur. ,,Þú segir að þær ætluðu sér að verða næst bestar. Ætluðu þær ekki að fara inn í þetta mót og challenga Val almennilega? Ef ég horfi bara á hópinn í heild sinni þá er þetta ekki verri hópur en Valur er með.” ,,Ég veit að það er erfitt að fylla skarð Elínar Klöru en þær fá bæði Jóhönnu Margréti og Emblu. Andskotinn hafi það,” sagði Einar sem er greinilega hissa á gengi Haukaliðsins í vetur en liðið missti Rut Jónsdóttir snemma út á tímabilinu vegna barneigna og þá er Inga Dís Jóhannsdóttir og Sara Odden. Eins og fyrr segir fer fram stórleikur í Olís-deild kvenna í kvöld þegar Haukar og Valur mætast á Ásvöllum í fyrsta leik 8.umferðar deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.