Aron Rafn Eðvarðsson (Haukar)
Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Hauka er íþróttamaður Hauka árið 2025. Félagið hélt viðurkenningahátíð sína á gamlársdag á Ásvöllum. Aron Rafn lék vel með Haukum tímabilið 2024/2025 og lagði skóna á hilluna í kjölfarið. Hann dró þá ákvörðun hinsvegar til baka seint í sumar eftir að ljóst var að uppeldisfélag hans væri í markmannsvandræðum vegna meiðsla Vilius Rasimas. Það fór svo að Aron Rafn tók skóna aftur af hillunni og hefur verið einn besti ef ekki besti leikmaður Hauka í tímabilinu í Olís-deild karla. Hann var einn af fimm markvörðum á 35 manna lista Snorra Steins Guðjónssonar fyrir EM sem framundan er. Handkastið óskar Aroni Rafni til hamingju með viðurkenninguna.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.