Elliði Haukur og Gísli (Sævar Jónasson)
Handboltinn, Þjóðaríþróttin er á margra vörum í janúar mánuði eins og hefur verið síðustu áratugina, janúar er mánuður tileinkaður Þjóðaríþróttinni. Hjörvar Hafliðason, Dr. Football er þar ekki undanskilinn og komst ekki hjá því að ræða Þjóðaríþróttina í einum af sínum þáttum í upphafi árs. Þar ræddi hann um áhyggjur sínar yfir Þjóðaríþróttinni og þá helst útsendingum handboltans af íslensku deildinni eftir að Olís-deildirnar fóru frá Suðurlandsbrautinni og yfir til HSÍ á Engjaveginum. ,,Maður hefur verulegar áhyggjur af framtíð handboltans á Íslandi. Hvað Sýn hefur gert fyrir úrslitakeppnina í körfubolta, þeir hafa búið til eitthvað skrímsli sem handboltinn á ekki séns í. Ég heyrði af því í vor að það væri einhver handboltastrákur í Fram sem væri ótrúlega góður. Ég hefði aldrei séð hann spila, aldrei,” sagði Hjörvar og er þá líklega að vitna í Reyni Þór Stefánsson sem varð Íslands- og bikarmeistari með Fram á síðustu leiktíð og gekk í raðir þýska úrvaldeildarliðsins, Melsungen í sumar. Reynir var valinn MVP bæði í bikarúrslitahelginni og í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. ,,Ég hef ekki séð einn leik með HK í ár. Leikmenn í deildinni verða að líka að segja, það er tæknilega verið að drepa handboltann hérna á Íslandi. Það þarf að fara bjarga þessu og þeir þurfa að koma sér aftur inn á Sýn. Þetta er algjörlega steindautt,” sagði Hjörvar meðal annars áður en Hjálmar Örn Jóhannsson, Hjammi tók undir. ,,Ég hef ekki séð einn leik í vetur, ég horfði á alla þessa leiki þegar þetta var á Sýn og Seinni bylgjuna. Fyrir bolinn þarna úti þá hefur hann ekki hugmynd um þetta.” Olís-deildir karla og kvenna eru sýndar í Handboltapassanum auk þess sem einn leikur í hverri umferð í Olís-deild karla og kvenna er sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans, sjónvarpi allra landsmanna. Miðað við mælingar frá því að handboltinn fór yfir til Símans er langt síðan jafn mikið áhorf hefur verið á staka leiki í deildarkeppni í Olís-deildum karla og kvenna. Sitt sýnist hverjum og allt það en vert er að benda á það að sambýliskona Hjörvars Hafliðasonar, Heiðrún Lind Marteinsdóttir er stjórnarmaður í Sýn og í september á síðasta ári var tilkynnt að hún hafi keypt í Sýn. Þá er Hjörvar einnig starfsmaður Sýnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.