Snorri Steinn fer yfir málin (Sævar Jónasson)
Það vakti athygli að HSÍ gaf frá sér tilkynningu fyrir aðra æfingu íslenska landsliðsins á laugardagsmorgun að Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni hafi þurft að draga sig úr landsliðshópnum vegna meiðsla. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska landsliðsins hafði sagt í viðtölum við íslenska fjölmiðla fyrir fyrstu æfinguna að staðan á hópnum væri góð og allir heilir fyrir utan Þorstein Leó sem er enn utan hópsins en er 19.maður. Handkastið spurði Snorra Stein út í meiðslin á Donna fyrir æfingu landsliðsins í Safamýrinni í dag en liðið ferðast til Frakklands á fimmtudag og leikur tvo æfingaleiki um helgina í París. ,,Hann hafði verið að glíma við meiðsli og þau voru verri en hann taldi og við töldum og töluvert verri. Því miður fyrir hann þá lítur út fyrir að hann sé á leiðinni í aðgerð. Maðurinn var bara ekki heill heilsu og þurfti að draga sig úr landsliðshópnum,” sagði Snorri Steinn og bætti við: ,,Auðvitað var þetta ekki eitthvað sem við eða hann vorum að búast við.” Snorri valdi fimm örvhenta leikmenn í 18 manna lokahóp sinn og hefur ekki bætt við leikmanni í stað Donna. Snorri Steinn sagði í viðtalinu að hann hafi að sjálfsögðu velt því fyrir sér hvort hann bæti inn leikmanni eða ekki eins og staðan væri í dag væri það ekki að fara gerast strax.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.