Bjarki Már Elísson (Sævar Jónasson)
Það vakti athygli að Bjarki Már Elísson vinstri hornamaður íslenska landsliðsins og Veszprém í Ungverjalandi æfði ekki með íslenska landsliðinu á fyrstu tveimur æfingum liðsins er liðið hóf undirbúning sinn fyrir Evrópumótið á föstudaginn. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands segist ekki hafa neinar áhyggjur af stöðu Bjarka og segir að ástæðan fyrir því að Bjarki hafi ekki æft með liðinu á fyrstu tveimur æfingunum hafa verið varúðarráðstafanir og ekkert alvarlegra en það. ,,Staðan á Bjarka er frábær og miðað við æfinguna í gær (mánudag) leit hann mjög vel út. Þetta var meira varúðarráðstöfun að vera ekki með hann á fyrstu æfingunum. Hann er að koma úr pásu og hefur æft öðruvísi en aðrir. Eins og hann orðaði það við mig þá sagðist hann alveg geta æft en sjúkraþjálfarnir mátu það þannig að þetta væri skynsamlegra. Þá ákvað ég að vera sammála því,” sagði Snorri Steinn meðal ananars í viðtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.