Benedikt Gunnar Óskarsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Samkvæmt heimildum Handkastsins mun Benedikt Gunnar Óskarsson söðla um í sumar og yfirgefa norska félagið Kolstad eftir tveggja ára veru hjá félaginu. Benedikt Gunnar gekk í raðir Kolstad sumarið 2024 eftir að hafa verið hluti af sigursælu liði Vals sem vann meðal annars Evrópubikarinn tímabilið áður en Benedikt hélt í atvinnumennsku. Margir leikmenn Kolstad eru orðaðir frá félaginu eða hafa ákveðið að yfirgefa félagið næsta sumar en félagið er í miklum fjárhagsvandræðum. Hafa leikmenn á borð við Andreas Palicka og nú síðast Magnus Sødenå verið orðaðir frá félaginu og þá hefur stórskyttan, Simen Lyse skrifað undir samning við Paris Saint Germain. Kolstad tapaði í bikarúrslitum gegn Runar fyrir áramót í vítakastkeppni en Benedikt Gunnar var ekki með í þeim leik þar sem hann handarbrotnaði í síðasta leik liðsins fyrir jólafrí og verður frá keppni næstu vikurnar. Er liðið í 2.sæti deildarinnar á eftir Elverum en félagið hefur alls ekki náð þeim hæðum sem stjórnarmenn félagsins vonust eftir, fyrir nokkrum árum og hafa stórstjörnur félagsins frekar verið að hverfa á braut heldur en hitt. Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref Benedikts Gunnars verður á ferlinum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.