Hákon Daði Styrmisson (Photo by Swen Pförtner / dpa Picture-Alliance via AFP)
Handkastið greindi frá því í morgun að samkvæmt heimildum yrði Hákon Daði Styrmisson kynntur sem nýr leikmaður Vals í vikunni. Þær heimildir voru hinsvegar ekki réttar en Handkastið hefur nú fengið það gott sem staðfest að samningaviðræður Hákons Daða við Val hafi strandað á launatengdum málum. ÍBV hafi gengið fast á eftir sínum uppaldna leikmanni eftir að Jakob Ingi Stefánsson leikmaður ÍBV hafi slitið krossband undir lok síðasta árs. Hákon Daði sem leikið hefur í Þýskalandi undanfarin tímabil er fluttur til Íslands vegna persónulegrar ástæðna en hann á von á sínu fyrsta barni með kærustu sinni. Hann hefur leikið í þýsku B-deildinni með Eintracht Hagen. Samningarviðræður Hákons Daða við ÍBV hafa staðið yfir í langan tíma. Samkvæmt heimildum Handkastsins hafði Hákon Daði mikinn áhuga að leika með félagsliði á höfuðborgarsvæðinu og vonaðist eftir því að geta gengið í raðir Vals. Hákon Daði átti síðast fund með Val um helgina og eftir þann fund hafa hjólið greinilega farið að snúast í samningarviðræðum Hákons Daða við ÍBV því samkvæmt heimildum Handkastsins verður leikmaðurinn kynntur sem nýr leikmaður ÍBV fyrir helgi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.