Snorri Steinn (Sævar Jónasson)
Það er ljóst að eins og staðan er í dag verður íslenska landsliðið án Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna og Þorsteins Leós Gunnarssonar í riðlakeppni Evrópumótsins. Donni dró sig úr landsliðshópnum um helgina vegna meiðsla og þá er Þorsteinn Leó enn að glíma við meiðsli en vonir standa til að hann gæti mögulega komið inn í landsliðið í milliriðlum keppninnar. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari Íslands var spurður út í mikilvægi þessara leikmanna og hvort hlutverk þeirra hefði verið það stórt að það sé hægt að koma með eftir á skýringar eftir mót ef illa fer, að þessa leikmennn hafi vantað. ,,Það verða alltaf einhverjar eftir á skýringar sama hvernig fer. Við getum ekki hallað okkur upp að meiddum mönnum. Þeir eru bara meiddir en auðvitað hafa þessir tveir eiginlega sem ég hefði viljað hafa í hópnum. Ef þriðji leikmaðurinn með þessa eiginleika væri til staðar þá væri ég kannski búinn að kalla hann inn. Þetta hefur einhver áhrif en þetta er nú bara þannig að þú ert með einhvern ákveðinn hóp og ert með heila leikmenn og ég einbeiti mér bara að þeim. Ég er ekkert að velta fyrir mér núna hvað Þorsteinn eða Donni myndi gera. Þetta er bara staðan og ég einbeiti mér að þeim leikmönnum sem ég hef. Síðan geta allir velt því fyrir sér þegar riðilinn er búinn hvað hefði getað gerst með þá í liðinu,” sagði Snorri Steinn meðal annars í viðtali við Handkastið fyrir æfingu landsliðsina á þriðjudaginn. Íslenska landsliðið leikur gegn Slóveníu í æfingaleik í París á morgun klukkan 17:30 en leikurinn verður sýndur í beinni á RÚV. Handkastið gerir upp leikinn í hlaðvarpsþætti sínum beint eftir leik.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.