Snorri Steinn (Sævar Jónasson)
Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska karla landsliðsins var ánægður með margt í spilamennsku landsliðsins í sigrinum gegn Slóveníu í dag í fjögurra liða æfingamóti sem fer fram í París um helgina. Ísland vann sex marka sigur, 32-26 eftir að hafa verið 21-13 yfir í hálfleik. Um er að ræða loka undirbúningsleiki Íslands áður en Evrópumótið hefst í næstu viku en Ísland leikur sinn fyrsta leik á mótinu gegn Ítalíu, föstudaginn 16. janúar. ,,Fyrstu viðbrögð eru þau að ég er mjög ánægður með fyrri hálfleikinn. Hann var frábær hjá okkur og það gekk flest upp hjá okkur. Ég er hinsvegar ekki nægilega ánægður með byrjunina á seinni hálfleiknum. Þar dettum við niður á of mörgum stöðum og síðan koma þeir inn í leikinn með mikla hörku og smá vitleysu og það slær okkur útaf laginu. En ekki að það eigi að afsaka einhverja hluti. Síðan fannst mér við finna aftur taktinn þegar Gísli kom aftur inná og sigldum þessu vel heim,” sagði Snorri Steinn í viðtali við Handkastið en hringt var í hann í miðjum uppgjörsþætti Handkastsins sem er kominn á allar hlaðvarpsveitur. Undirritaður nefndi tvo hluti í fyrri hálfleik sem hann tók eftir. Annar var hversu fljótur Viktor Gísli var að koma boltanum í leik og minnti svolítið á Björgvin Pál samherja sinn og þá var mikið línuspil í sóknarleik Íslands í fyrri hálfleik og sagðist undirritaður ekki muna eftir öðru eins línuspili í einum hálfleik síðan Snorri Steinn tók við landsliðinu. ,,Þetta var ekkert upplegg hjá mér að gefa á línuna en það voru einhverjir hlutir sem mér fannst þeir veikir fyrir. En í grunninn var ég meira að fókusa á okkur og þetta eru hlutir sem við höfum farið yfir á æfingum. Mér finnst einhverjuleiti vera rökrétt skref miðað við það sem hefur verið að gerjast hjá okkur í undanförnum verkefnum. Það er ákveðnar tengingar og fíniseringar á milli leikmanna sem ég hef verið að upplifa að séu að færast í góða átt. Mér finnst þetta meira staðfesta það sem hefur verið að gerjast.” Ómar Ingi Magnússon hóf leikinn af miklu krafti en hann skoraði fjögur mörk í leiknum. Hann minnti mann á Ómar Inga í Magdeburg-treyjunni. ,,Þetta var rökrétt frammistaða miðað við það hvernig ég hef upplifað hann í síðustu verkefnum. Hann hefur verið góður og virkar ferskari en oft áður og kannski eitthvað sem hann er að taka með sér miðað við spilamennsku hans í Magdeburg. Það kom okkur ekkert á óvert hvernig hann var. Hann er einbeittur og lítur vel út. Þetta er Ómar eins og hann á að vera og ef eitthvað er, þá vill maður meira. En við skulum líka fara varlega og leggja ekki of mikið á einn mann,” sagði Snorri Steinn meðal annars í viðtalinu en lengra og ítarlega viðtal við Snorra Stein er hægt að hlusta á, í nýjasta þætti Handkastsins. Þar er hann spurður út í leikinn sem framundan er gegn Frakklandi á sunnudaginn og út í fyrstu andstæðinga Íslands á Evrópumótinu, Ítalíu. Viðtalið við Snorra Stein hefst eftir rúmlega 20 mínútna þátt.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.