Janus Daði Smárason (Julien Kammerer / DPPI via AFP)
Janus Daði Smárason er á leið til Barcelona næsta sumar frá Pick Szeged. Fjallað var um verðandi félagaskipti Janusar til Barcelona frá Pick Szeged fyrr á þessu tímabili. Ekkert hefur þó verið staðfest í þessum málum af félögunum sjálfum og vildi Janus Daði lítið tjá sig um málið er hann var spurður að því í viðtali við Handkastið, hvenær það mætti búast við því að félagaskipti hans til Barcelona yrðu kynnt. ,,Þú verður að heyra í umboðsmanninum mínum og félögunum hvað þetta varðar. Ég er bara leikmaður og má ekkert segja. Ég kem alveg af fjöllum,” sagði Janus Daði pólitískur í svörum. Janus Daði hefur komið víða við á ferlinum en undanfarin tímabil hefur hann leikið í Ungverjalandi með Pick Szeged og þar áður með Kolstad í Noregi. Þá lék hann í Þýskalandi og í Danmörku. Hjá Barcelona mun hann hitta samherja sinn hjá íslenska landsliðinu, Viktor Gísla Hallgrímsson.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.