Viktor Gísli - Einar Þorsteinn - Þorsteinn Leó (Sævar Jónasson)
,,Innan hópsins vonumst við auðvitað til að hann verði klár sem fyrst en við erum meðvitaðir um stöðuna og hann hefur ákveðið X-faktor að koma með inn á völlinn. Við erum ekki margir sem eru 2,20cm og hreyfum okkur samt eins og NBA leikmaður," sagði Janus Daði Smárason leikmaður íslenska landsliðsins í viðtali við Handkastið á dögunum aðspurður að því hvort undirbúningur liðsins væri eitthvað öðruvísi eftir meiðslin á Þorsteini Leó. Vonir standa til að Þorsteinn Leó Gunnarsson, leikmaður Porto geti spilað með íslenska landsliðinu í milliriðli Evrópumótsins komist liðið þangað en fyrst þarf liðið að spila þrjá leiki í riðlakeppni mótsins og vera í efstu tveimur sætum riðilsins. ,,Ég held að það gangi vel hjá honum og vonandi fáum við að njóta krafta hans á mótinu. Við erum hinsvegar ekkert með hangandi haus að bíða eftir honum. Það væri held ég bara skrítið," sagði Janus Daði í viðtali við Handkastið. Þorsteinn Leó sagði sjálfur í viðtali við Handkastið að endurhæfingin gangi ágætlega og stefnan væri á að ná leikjum í milliriðlinum. Hvort um raunhæft markmið væri um að ræða, sagði Þorsteinn Leó að hann vonaðist allavegana eftir því að það myndi takast. Íslend hefur leik á Evrópumótinu 16.janúar gegn Ítalíu og spilar svo gegn Póllandi 18.janúar og Ungverjalandi 20.janúar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.