Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari (Sævar Jónasson)
Snorri Steinn Guðjónsson segir að fyrstu viðbrögð eftir tveggja marka tap Íslands gegn Frakklandi í lokaleik strákanna fyrir Evrópumótið séu þau að hann sé fúll að hafa tapað leiknum. Frakkland vann leikinn 31-29 eftir að Íslandi hafi verið 16-14 yfir í hálfleik. ,,Fyrst eftir leik var ég fúll. Mér fannst við rétta þeim þetta á silfurfati miðað við sum atriði undir lokin en það getur gerst. Við vorum að spila gegn frábæru liði á þeirra heimavelli fyrir framan 16-17 þúsund manns. Núna fer maður að gera þessa tvo leiki upp í heild sinni og vega og meta það, meira heildrænt. Ég held að ég taki meira jákvætt heldur en neikvætt útúr þessum leikjum. Það sem mér fannst mikilvægast var að koma útúr þessum leikjum og líða vel. Ég var ánægður með hlutina og finnst við vera á góðu róli áður en alvaran tekur við,” sagði Snorri Steinn í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Handkastsins sem gerði upp leikinn. Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu fer fram næstkomandi föstudag. Þar mætir Ísland Ítalíu. ,,Mér fannst góð holning á okkur og það var ákveðinn bragur á okkur og ákveðinn neisti sem ég var mjög ánægður með og eitthvað sem verði að vera hjá okkur. Síðasti gluggi hjá okkur (gegn Þýskalandi) sýndi það mjög skýrt. Síðan var ég heilt yfir ánægður með varnarleikinn, það kom kafli gegn Slóvenum sem við dettum aðeins niður en í heildina var sá leikur flottur. Það koma kaflar í seinni hálfleik þar sem við erum í brasi. Í dag erum við að keppa gegn einni bestu vörn í heimi og það er eitthvað sem við þurfum að hugsa um, hvernig við getum fengið aðeins ódýrari mörk eða einfaldari mörk.” Snorri Steinn var spurður út í stemninguna sem íslensku strákarnir sýndu í leiknum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. ,,Ég hef aldrei velt þessu fyrir mér. Mér hefur aldrei fundist skorta þetta hjá landsliðinu, það er ekki mín upplifun. Vissulega var góð orka og mér fannst líka gott að strákarnir voru ekki að hlífa sér, það var enginn æfingaleikjabragur á okkur. Auðvitað gírast menn ósjálfrátt upp í svona aðstæðum, þetta var frábær æfingaleikur að fá.” Hann var spurður að því hvort það væri áhyggjuefni að hann hafi ekki fengið meira af borðinu frá leikmönnum sem fengu minni tækifæri í leiknum gegn Slóveníu en Snorri Steinn rúllaði vel á liðinu í leiknum í kvöld. ,,Ég ætla ekki að líta á þetta sem eitthvað áhyggjuefni. Þetta er bara eins og gengur og gerist, sumir eiga góðan leik og aðrir ekki. Ég hef nú ekki rýnt almennilega í það hvað ég fékk af bekknum. Mér fannst Janus koma sterkur inn í fyrri hálfleikinn og mín upplifun var að Teitur kom fínt inn varnarlega. Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið þannig en það er ekkert sem situr í mér eins og staðan er,” sagði Snorri Steinn meðal annars í viðtalinu við Handkastið en lengra og ítarlegra viðtal við Snorra er hægt að hlusta á, í upphafi uppgjörsþáttar Handkastsins eftir leikinn.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.