Jón Bjarni Ólafsson (Sævar Jónasson)
Stórleikur 8.umferðar Olís deildar karla fór fram í Kaplakrika í kvöld þar sem FH tóku á móti nágrönnum sínum Haukum. Spennustigið var hátt í upphafi leiks eins og oft í þessum leikjum og fóru mikið af dauðafærum forgörðum hjá báðum liðum. Staðan var 5-6 fyrir Haukum um miðbið fyrri hálfleiks og lítið um markaskorun eins og sjá má á tölum leiksins. Haukar leiddu 9-12 í hálfleik og var áhyggjuefni fyrir FH-inga hversu fá mörk liðið náði að skora. Sigursteinn Arndal og þjálfarateymi FH hefur eitthvað messað yfir sínum mönnum í hálfleik því það kom allt annað lið til leiks sóknarlega í síðari hálfleik. FH voru ekki lengi að ná að jafna metin en Haukar höfðu alltaf frumkvæðið og voru fyrri til að skora. Það var jafnt nánast á öllum tölum leiksins allt til loka. FH náðu að komast yfir 26-26 þegar 1 mínúta var til leiksloka og var þetta í fyrsti skipti sem FH komst yfir síðan á upphafsmínútum leiksins. Haukar náðu að jafna metin 26-26 þegar 20 sekúndur voru eftir en þá tóku FH leikhlé og stilltu upp í lokasókn. Birgir Már Birgisson skoraði sigurmark FH þegar 5 sekúndur voru til leiksloka og voru Haukar brjálaðir yfir því að fá ekki ruðning á Leonharð í aðdragada marksins. Garðar Ingi Sindrason var frábær í liði FH í kvöld, sérstaklega í síðari hálfleik og skoraði 8 mörk. Hergeir Grímsson var markahæstur hjá Haukum með 5 mörk þar af komu 4 þeirra út vítakasti. Þetta var fyrsta tap Hauka síðan í 1.umferð en þeir sitja áfram á toppi deildarinnar með jafn mörg stig og Valur. FH komst upp í 5.sæti deildarinnar með sigrinum og eru þeir með 9 stig. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 2 fyrir 1 af öllum boozt á Hressbarnum út október. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.