Vona að þessi leikur sé til umræðu á öllum helstu kaffistofum bæjarsins
Brynjólfur Jónsson)

Össur Haraldsson (Brynjólfur Jónsson)

Stórleikur 8.umferðar í Olís-deild karla fer án efa fram í Kaplakrika annað kvöld þegar Hafnarfjarðarliðin, FH og Haukar eigast við. Hefst leikurinn klukkan 19:30 og verður í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans.

Haukar mæta í Kaplakrika sem topplið Olís-deildarinnar en langt er síðan Haukar voru á þeim stað í Olís-deildinni. 

Handkastið heyrði í Össuri Haraldssyni vinstri hornamanni Hauka fyrir leikinn en hann er ánægður með hvernig tíambilið hefur farið af stað hjá Haukum.

,,Mér finnst við hafa verið mjög stabílir í öllum leikjum tímabilsins nema þeim fyrsta gegn Aftureldingu,” sagði Össur en það er eini tapleikur liðsins á tímabilinu.

,,Spilamennskan hefur verið góð, við erum að skora mörg mörk og fá lítið af mörkum á okkur. Ég get ekki kvartað yfir því,” sagði Össur sem segir að það sé góður andi í hópnum.

,,Það eru allir á sömu vegferð og með sömu markmið. Gunnar Magnússon er náttúrlega einn reynslu mesti þjálfari deildarinnar í dag og veit hvað þarf til þess að búa til gott umhverfi þar sem leikmenn fá að skína og liðið í heild.”

,,Hann vill auðvitað spila leikinn eftir sínu höfði en hingað til hefur það virkað. Maður finnur fyrir áherslubreytingum bæði innan og utan vallar,” sagði Össur en Gunnar tók við liði Hauka í sumar eftir langa veru í Mosfellbænum.

,,Þegar Hafnarfjarðarslagurinn gengur í garð skipta síðustu úrslit liðanna engu máli. Ég geri ráð fyrir því að FH-ingar mæti í leikinn af nákvæmlega sömu ástæðu og við, til þess að vinna leikinn.”

,,Ég ætla vona að þessi leikur sé til umræðu á öllum helstu kaffistofum bæjarsins. Þessir leikir eru alltaf sérstakir og sigur í Hafnarfjarðarslag þýðir meira en hefðbundinn sigur,” sagði Össur að lokum í samtali við Handkastið.

Leikir 8.umferðar:
Fimmtudagur:
18:30 Þór - Selfoss
19:00 Valur - ÍR
19:30 FH - Haukar

Föstudagur:
19:00 Stjarnan - Afturelding

Laugardagur:
14:30 HK - Fram
15:00 ÍBV - KA

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top