Jóhanna Margrét Sigurðardóttir (Haukar)
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir leikmaður Hauka þurfti að sætta sig við fjögurra marka tap í Skógarselinu í dag gegn ÍR, 30-26 í 7.umferð Olís-deildar kvenna. Jóhanna Margrét var markahæst í liði Hauka með sjö mörk ásamt Emblu Steindórsdóttur. Jóhann var í viðtali hjá Árna Stefáni Guðjónssyni í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans eftir leik. ,,Þetta var ógeðslega svekkjandi hvernig við komum inn í fyrri hálfleikinn. Við vorum alltof soft og það varð okkur að falli í dag,” sagði Jóhanna Margrét. ,,Mér finnst við vera koma okkur í færin en erum að klikka þeim. Ég er ánægð með karkaterinn sem við sýnum og komum aftur inn í leikinn en því miður var það ekki nóg í dag.” Töluvert vantaði í liði Hauka í kvöld þar á meðal Söru Odden, Ingu Dís Jóhannsdóttur og þá verður Rut Jónsdóttir ekkert meira með liði Hauka í vetur. ,,Það munar um þá leikmenn sem eru ekki með okkur í dag og það eykur breiddina hjá okkur. Þetta eru mjög góðir leikmenn en mér finnst við samt sem áður eiga að geta klárað leikina án þeirra.” Framundan er stórleikur hjá Haukum gegn Val í vikunni áður en liðið leikur í Evrópubikarnum. Hvað þarf Haukaliðið að bæta fyrir þá leiki? ,,Við þurfum að klára brotin okkar og spila hörkuvörn. Þegar við spilum góða vörn og keyrum á andstæðinginn þá finnst mér við gera vel. Við þurfum að halda því áfram,” sagði Jóhanna Margrét að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.