Anton Månsson (Oliver Zimmermann / foto2press / dpa Picture-Alliance via AFP)
Sænski handboltamaðurinn, Anton Månsson fyrrverandi landsliðsmaður Svíþjóðar og leikmaður sænsku meistarana í Ystads IF hefur greinst með eitilfrumukrabbamein. Anton sem varð 36 ára í janúar á þessu ári hefur leikið með Ystads IF frá árinu 2021 og lék meðal annars gegn Val í Evrópudeildinni fyrir þremur árum. Hann á langan og farsælan feril að baki en hann hefur meðal annars leikið með Melsungen, Lemgo, Mindeo og Kadetten Schaffhausen. Svíinn kveðst staðráðinn í að vinna mikilvægustu rimmu ævi sinnar en átti erfitt með að segja börnum sínum frá veikindunum. Læknar héldu í fyrstu að hann hefði fengið sýkingu og gáfu honum sýklalyf. Þau lyf höfðu lítil áhrif á Svíann stóra og stæðilega og eftir frekari rannsóknir kom í ljós að hann væri með krabbamein. Anton og eiginkona hans, handknattleikskonan, Nadja Månsson tjáðu sig um veikindin í vikunni þar sem þau sögðu frá því þegar þau tilkynntu börnunum sínum frá veikindum föðursins. ,,Yngsta barnið mitt spurði beint: „Pabbi, ertu að fara að deyja núna?” Það er auðvitað erfitt að heyra það. Eldri sonurinn sem er að verða níu ára, er þolinmóðari og hlustar betur. Hann skilur að þetta er alvarlegt,” sagði Anton Månsson við sænskatímaritið Aftonbladet. ,,Eins og staðan er núna er ég aðallega þreyttur og lít ekki mjög veiklulega út en það mun breytast í meðferðinni. Ég mun líta öðruvísi út og líklega verður litið á mig með öðrum hætti,“ sagði sænski leikmaðurinn sem lék á árunum 2012-2017 með sænska landsliðinu. Félag hans, Ystads IF sendi frá sér tilkynningu á samfélagsmiðlum eftir að fjölskyldan greindi frá veikindunum og óskaði honum alls hins besta.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.