Ágúst Jóhannsson (Sævar Jónasson)
14.umferðin í Olís-deild karla hefst í kvöld með fjórum leikjum en tveir leikir fara fram annað kvöld þegar umferðinni lýkur. Farið var yfir leiki 13.umferðar í Handboltahöllinni á mánudagskvöldið. Að þessu sinni var það Ingvar Örn Ákason sem stýrði umræðunni en með honum voru Ásbjörn Friðriksson og Rakel Dögg Bragadóttir. Ein af umræðunni sem þau tóku var hvert væri besta lið deildarinnar. Ingvar beindi stpurningunni að FH-ingnum, Ásbirni Friðrikssyni hvort Haukar væru með besta liðið í dag. ,,Mér finnst Valur vera besta liðið í dag. Ég get fært rök fyrir því, mér finnst byrjunarliðin hjá báðum liðum frábær en mér finnst Valur með meiri breidd, sérstaklega þegar Gunnar Róbertsson kemur inn aftur. Þeir hafa fleiri leikmenn varnarlega. Þó að Arnór myndi detta út, sem er þeirra mikilvægasti leikmaður þá hafa þeir varamann fyrir alla,” sagði Ásbjörn og hélt áfram: ,,Mér finnst Haukar lenda í miklu veseni ef Þráinn dettur út, ef Skarphéðinn dettur út eða Aron Rafn myndi detta út. Valsmegin væri ég hræddur ef Björgvin Páll myndi detta út. Eins og staðan er í dag, þá er Valur að spila aðeins betur en Haukar.” Bæði Valur og Haukar verða í eldlínunni í kvöld. Valur fær Þór í heimsókn á meðan Haukar fara í heimsókn til botnliðs ÍR. Liðin eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar með 20 stig en Afturelding er í 3.sætinu með 19 stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.