Frábært að kveðja félagið með titli
(Egill Bjarni Friðjónsson)

Elín Klara Þorkelsdóttir ((Egill Bjarni Friðjónsson)

Elín Klara Þorkelsdóttir gekk til liðs við Savehöf í sumar eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu Haukum allan sinn feril. Hvernig horfir þú á síðasta tímabil nú þegar þú ert búin að koma þér fyrir í Svíþjóð?

„Tíminn minn hjá Haukum var virkilega góður. Haukar er uppeldisfélagið mitt þar sem ég hef náð að vaxa sem handboltaleikmaður og það var extra sætt að ná stórum titli með félaginu mínu. Það stendur margt uppúr frá þessum tíma en ég var með geggjaða þjálfara sem hjálpuðu mér mikið, liðsheildin var ótrúlega góð og er ég virkilega þakklát fyrir þennan tíma.”

Haukar tryggðu sér bikarmeistaratitil á heimavelli á síðasta tímabili þar sem Final 4 fór fram á Ásvöllum. Var ekki sætt að tryggja sér titilinn á heimavelli og skilja við Hauka með titil í bikarskápnum? „Já það var virkilega sætt! Það hefur alltaf verið markmið að ná að vinna titil með Haukum og því var frábært að kveðja félagið með titli.”

Þrátt fyrir að hafa verið með frábært lið þá tókst Haukum ekki að landa Íslandsmeistaratitlinum og viðurkenni Elín Klara að það hafi verið mikil vonbrigði. „Já það er alltaf svekkjandi að tapa og maður vill alltaf vinna en svona er boltinn. Ég er virkilega stolt af Hauka liðinu og vegferðinni okkar, það hefur verið mikill stígandi hjá liðinu síðsutu ár og reynslan hefur aukist jafnt og þétt.”

Elín Klara hefur verið ein besta handboltakona landsins undanfarin ár og var til að mynda lang markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar á síðasta tímabili og segist hun hafa stefnt að þessu markmiði lengi. „Já mig langaði alveg út fyrir síðasta tímabil en ég ákvað að taka eitt tímabil í viðbót heima vegna þess að það var góður hópur í Haukunum, vel æft og liðið hafði mikla trú. Einnig langaði mig að klára aðeins meira af náminu mínu áður en að ég færi úr. Þannig ég fór fyrsti í almennilegar viðræður fyrir rúmu ári síðan.”

Svíþjóð var alltaf fyrsti kostur hjá Elínu Klöru eftir að þeir höfðu samband við hana en hún viðurkennir þó að það hafi einnig verið áhugi frá Danmörku og Þýskalandi. En hvað var það sem heillaði hana við Savehof? „Savehof er stór og flottur klúbbur, umgjörðin hérna er til fyrirmyndar og aðstaðan er virkilega góð. Liðið öflugt og spilar hraðan handbolta.”

Fyrstu vikurnar hafa gengið vel og undirbúningstímabilið er í fullum gangi og Elín Klara viðurkenni að þetta bæði verið skemmtilegur og erfiður undirbúningur. Allir hafa tekið vel á móti henni og liðið er búið að fara í æfingarferð en nú fer að styttast í alvöruna. „Við eigum eftir eitt æfingarmót áður en bikarkeppnin fer af stað.”

Þegar Elín Klara er spurð út í framtíðina segir hún að hún ætli að taka eitt skref í einu, byrja á því að sanna sig úti, ná tökum á tungumálinu og komast almennilega inn í leikskipulagið. „Æfingarmagnið hérna úti er töluvert meira en í Haukum og það er búið að vera mikil keyrsla núna í byrjun sem er bara jákvætt.”

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top