Þetta eru sigurvegarar – Þurfum að bæta líkamlegan styrk
IHF)

Garðar Ingi Sindrason (IHF)

Íslenska karla landsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri lauk leik á HM í Egyptalandi í dag þegar liðið tapaði gegn heimönnum 33-31 í leik um 5.sætið á mótinu. Niðurstaðan því 6.sæti á HM en sama lið endaði í 4.sæti á EM í fyrra.

Heimir Ríkarðsson var í óðaönn að undirbúa heimkomu liðsins eftir langt og strangt mót þar sem liðið hefur spilað átta leiki á tæplega tveimur vikum þegar Handkastið sló á þráðinn til Egyptalands.

,,Við erum að reyna að jafna okkur á þessu tapi. Þetta var svekkjandi tap eftir frábæran fyrri hálfleik þar sem vörn, sókn og markvarsla var mjög góð," sagði Heimir en íslenska liðið var fimm mörkum yfir í hálfleik 17-12. Liðið tapaði hinsvegar seinni hálfleiknum með sjö mörkum 21-14.

,,Við vissum að þeir myndu koma aggresívir gegn okkur í seinni hálfleik og því miður gekk ekki almennilega að leysa það. Við þurftum því að bregðast við og fara í 7 á 6. Það gekk í smá stund en það er alltaf hættan að missa boltann og fá mark í tómt markið sem svosem gerðist," sagði Heimir sem vildi lítið tjá sig um dómgæsluna í leiknum.

,,Mér fannst nokkur atriði í leiknum sem höfðu mikil áhrif á þróun leiksins en ég nenni eiginlega ekki að ræða þau atriði núna."

,,Þetta er jafnt í lokin og hefði getað dottið báðum megin en þegar upp er staðið finnst mér þessi árangur hjá strákunum frábær. Það eru ekki mörg landslið sem geta státað sig á því að vera í topp fjórum á EM og topp sex á HM. Einnig hefur þetta lið endað í öðru sæti á European Open og í tvígang á Sparkassen Cup auk þess að vinna æfingamót í fyrra."

Samningur Heimis við HSÍ rennur út nú eftir mótið og segir hann óvissu ríkja með framhald sitt. Hann segir að nú verði sest niður og rætt við HSÍ og framhaldið ákveðið.

Þessi hópur fer á EM á næsta ári og segist Heimir spenntur að fylgjast með framtíð þeirra.

,,Þetta eru sigurvegarar og ég hef mikla trú á framtíð þessara drengja. Það sem við þurfum að bæta og laga er líkamlegur sterkur okkar. Hann þarf að vera meiri ef við ætlum að ná ennþá betri árangri. Það finnst mér standa svolítið uppúr og við þurfum að leggja mikla áherslu á að bæta það."

,,Heilt yfir er ég mjög sáttur með strákana. Þeir hafa verið frábærir bæði innan vallar sem utan. Það verður gaman að fylgjast með þeim í vetur," sagði Heimir að lokum í samtali við Handkastið.

Danmörk var að tryggja sér 3.sætið á mótinu eftir tveggja marka sigur á Svíþjóð í leiknum um bronsið. Framundan er úrslitaleikur milli Þýskalands og Spánverja.

,,Ég er með samning sem klárast núna og ég veit ekki hvað verður.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top