Einar Jóns sleppur við leikbann
(Kristinn Steinn Traustason)

Einar Jónsson ((Kristinn Steinn Traustason)

Einar Jónsson þjálfari Fram sleppur við leikbann eftir ummæli sín í viðtölum eftir leik Fram og Stjörnunnar í Meistarakeppni HSÍ í síðustu viku.

Aganefnd barst erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ, þar sem stjórn HSÍ ákvað að vísa til aganefndar HSÍ ummælum, sem Einar Jónsson, þjálfari Fram viðhafði um dómgæslu og dómaramál í viðtali eftir leik Fram og Stjörnunnar, í Meistarakeppni HSÍ í mfl. karla, þann 21. ágúst sl.

Þar sagði Einar til að mynda: „Þetta var frábær leikur, margt virkilega jákvætt en Stjarnan voru heilt yfir betri aðilinn í kvöld og voru leikstjórar í þessum leikhúsi fáranleikans og stjórnuðu leiknum og trúðasýningunni meira og minna allan leikinn," í samtali við Handkastið.

Í samræmi við 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var Fram gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð barst frá Fram.

,,Með vísan til fyrri fordæma er það mat nefndarinnar að gera verður í þessum efnum, greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra dómara, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli feli fyrst og fremst í sér gagnrýni þjálfarans sem byggja á upplifun hans og hann getur að einhverju marki fært rök fyrir. Innan tjáningarfrelsis þjálfarans rúmast, að mati nefndarinnar, réttur hans til að segja, innan skynsamlegra marka, skoðun sína á frammistöðu dómara, leikmanna og skipulagi HSÍ."

,,Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar eða óíþróttamannslega háttsemi sem nær því alvarleikastigi að réttlæt geta að láta þjálfarinn sæta viðurlögum. Að mati nefndarinnar er því ekki tilefni til að láta aðila sæta viðurlögum í máli þessu en áréttar þó mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni," segir í ákvörðun frá aganefnd HSÍ.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top