Segir ráðningu Ólafs Víðis vægast sagt undarlega
HK)

Ólafur Víðir Ólafsson (HK)

Mikil umræða hefur skapast í handboltahreyfingunni hér heima eftir að HK tilkynnti Ólaf Víði Ólafsson sem yfirþjálfara handknattleiksdeildar HK í síðustu viku. Margir hafa haft samband við Handkastið og tjáð óánægju sína með þá staðreynd að starfandi starfsmaður HSÍ ráði sig sem yfirþjálfara hjá einu af aðildarfélögum ÍSÍ.

Ólafur Víðir var tilkynntur sem yfirþjálfari HK og er samningur hans við félagið til eins árs. Jón Halldórsson formaður HSÍ sagði í samtali við Handkastið að mál Ólafs Víðis hefði ekki verið komið á borð til stjórnar HSÍ.

Í nýjasta þætti Handkastsins var þetta mál rætt en í þættinum voru þeir Arnar Daði Arnarsson, Styrmir Sigurðsson og Kristinn Björgúlfsson. Var þetta mál valið skita vikunnar í boði Skolphreinsun Ásgeirs.

,,Ég ætla nú ekki að leggja það í vana minn að skrifa fréttir um það þegar félög ráða yfirþjálfara eða yngri flokka þjálfara en ég verð að viðurkenna það að síminn hjá mér logaði," sagði Arnar Daði ritstjóri Handkastsins í þættinum og Styrmir Sigurðsson greip inní.

,,Ég fékk meiri segja að sjá inn í foreldrasíðu úr Kópavoginum svo HK-ingum finnst þetta líka skrítið. Þar sá ég að fólk var að klóra sér í hausnum yfir þessu. Það eru allir að tala um þetta."

,,Það verður að segjast eins og er að þetta er skita vikunnar. Ég hafði samband við Jón Halldórsson formann HSÍ sem virtist komast af fjöllum. Hvort hann hafi ekki vitað af þessu en hann sagði að þetta mál yrði rædd innan HSÍ og hann myndi taka fund með Ólaf Víði þar sem farið yrði yfir verkferla. Þá hélt ég að málinu yrði lokið en þá fékk ég fleiri skilaboð. “Er eðlilegt að yfirmenn Ólafs Víðis hafi ekki vitað að hann væri að taka að sér þetta starf?” sagði Arnar Daði og spurði Kristin Björgúlfsson hvað honum finnst um þetta mál.

,,Þetta er vægast sagt undarlegt. Mér finnst það algjörlega galið ef yfirmenn hans hjá HSÍ hafi ekki vitað af þessu. Og mér finnst það ótrúlegt ef mótastjóri HSÍ sem er í 100% starfi geti ráðið sig í 100% starf sem yfirþjálfari. Við getum lagt það til hliðar að við séum litla Ísland og allir þekkjast, það skiptir ekki máli," sagði Kristinn.

,,Ef þú ert að vinna fyrir HSÍ þá ertu að vinna fyrir HSÍ. Ég skil það ef þú ert að þjálfa 8.flokk eða eitthvað svoleiðis. Það þarf líka að vera einhver standard á því. Ef þú ert í vinnu fyrir sambandið þá ertu ekki yfirþjálfari hjá stærsta handboltafélagi landsins."

,,Síðast þegar ég vissi þá er yfirþjálfara starf hjá HK 100% staða. Mér finnst mjög skrítið hvernig hann ætlar að vinna bæði sem mótastjóri HSÍ sem er mjög krefjandi starf og vera yfirþjálfari HK sem er mjög krefjandi starf," sagði Kristinn en umræðan í þættinum um Ólaf Víði hefst í kringum 20. mínútu þáttarins.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top