Stefán Árnason (Raggi Óla)
Það styttist og styttist í komandi tímabil í Olís-deildum karla og kvenna en Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 3. september á meðan Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6. september. Handkastið heldur áfram að hita upp fyrir Olís-deildirnar og hefur sent sömu sex spurningarnar á alla þjálfara deildarinnar í karla og kvenna flokki. Nú er komið að því að sjá hvað þjálfari Aftureldingar í Olís-deild karla Stefán Árnason hafði segja. Ertu ánægð/ur með hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið? Í heildina nokkuð sáttur. Það hefur gengið upp og niður en við erum á ágætri leið í því sem við erum að gera. Leikmennirnir hafa alla vega lagt gríðarlega hart af sér og við erum að búa til lið. Hversu langt við verðum komnir þegar mótið byrjar verður að koma í ljós en við erum að taka fín skref í átt að því liði sem við viljum vera í vetur. Hvernig metur þú þær mannabreytingar sem hafa orðið á liðinu í sumar? Þær eru auðvitað töluverðar. Nokkrir farnir frá því í fyrra og við erum auðvitað bara mjög stoltir að hafa hjálpað Blæ og Birgi Stein að komast í góð lið í Evrópu því þeir svo sannarlega unnu fyrir því hjá okkur. Við erum virkilega ánægðir með þessa tvo leikmenn sem bættust við liðið. Strákar sem passa vel inn í það sem við erum að gera og eiga eftir að vera flottir í Aftureldingar treyjunni. Svo verða þetta yngri leikmenn sem koma í stærri hlutverk og hafa lagt mikið á sig í sumar svo við treystum þeim vel í verkefnið. Hverjar telur þú vera helstu áskoranir þínar og liðsins í vetur? Þær eru auðvitað að búa til nýtt lið og í raun að setja saman bæði nýja sókn og vörn. Höfum aðeins verið að leita eftir því hvaða leikmenn grípi tækifærið að verða lykilleikmenn á báðum endum vallarins og verður gaman að sjá hverjir geri það. Við erum okkur grein fyrir að við erum að fara af stað með hörku verkefni hérna sem verður mikil vinna en við erum mjög spenntir fyrir því og höfum gríðarlega trú á því sem við erum að gera. Hverjar eru væntingar þínar til tímabilsins? Í Mosfellsbæ viljum við alltaf gera vel og við ætlum að vera með alvöru handboltalið sem getur keppt við öll lið landsins. Væntingarnir eru svo ekki síður þær að leikmennirnir okkar bæti sig, þeir taki næsta skref í vetur og njóti þeirrar stöðu sem þeir eru í. Við ætlum að setja lið á völlinn sem Aftureldingar fólk getur verið stolt af og það sé gaman að horfa á liðið spila. Ef þú mættir velja þér einn leikmann úr öðru liði í deildinni til að fá í þitt lið - Hver væri það og afhverju? Danni Matt í KA af því að hann gerir allt sem þú biður hann um. Svo væri líka gaman að þjálfa hann í þriðja sinn. Hvaða lið telur þú að verði deildarmeistari í vetur? Valur
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.