Vilhjálmur Halldórsson (Lýður Jónsson)
Silfurlið Stjörnunnar í Powerade-bikarnum í fyrra, Stjarnan leikur fyrri leik sinn í forkeppni Evrópudeildarinnar gegn Baia Mare í Rúmeníu á laugardaginn. Hefst leikurinn klukkan 18:00 á staðartíma eða 15:00 á íslenskum tíma. Stjörnuliðið kom til Rúmeníu í gærdag eftir langt og strangt ferðalag sem hófst á Keflavíkurflugvelli á þriðjudagskvöldið. Þaðan var flogið til Póllands áður en flogið var til Cluj. Þar beið rútu eftir liðinu sem keyrði þá í þrjá tíma til Baia Mare. Vilhjálmur Halldórsson rekstarstjóri handknattleiksdeildar Stjörnunnar er með liðinu úti og staðfesti í samtali við Handkastið að leikurinn yrði hvergi sýndur. Livey er með sjónvarpsréttinn á Evrópudeildinni á Íslandi. Enn er óvíst hvort seinni leikur Stjörnunnar gegn Baia Mare sem fram fer í Garðabænum, laugardaginn 6.september klukkan 13:00 verði sýndur. Segir Vilhjálmur að þau mál muni skýrast í næstu viku. Stjörnuliðið æfir nú í keppnishöllinni og tekur síðan lokaæfingu í keppnishöllinni í Baia Mare á föstudaginn. Hátt í þrjátíu stiga hiti er í Rúmeníu í dag og verður sama upp á teningnum á leikdag.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.