Þurfum að eiga toppleik varnar og sóknarlega
Lýður Jónsson)

Hrannar á æfingu í dag. (Lýður Jónsson)

Silfurlið Powerade-bikarsins í fyrra, Stjarnan er þessa stundina í Rúmeníu þar sem liðið mætir liði Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld. Stjörnuliðið kom til Baia Mare seint á miðvikudag eftir 16 tíma ferðalag. Leikurinn hefst klukkan 18:00 á rúmenskum tíma annað kvöld, eða 15:00 á íslenskum tíma.

Seinni leikurinn fer fram laugardaginn 6.september í Heklu-höllinni í Garðabæ klukkan 13:00.

Handkastið heyrði í Hrannari Guðmundssyni þjálfara Stjörnunnar í dag og spurði hann aðeins út í ferðalagið og andstæðinganna.

,,Við ákváðum að fara fyrr af stað og ná ferðaþreytunni úr okkur fyrir laugardaginn. Ferðalagið gekk mjög vel og allir leikmenn og allur farangur skilaði sér á tilsettum tíma," sagði Hrannar en liðið hefur æft í keppnishöllinni síðustu tvo daga.

,,Við erum á hóteli í göngufæri frá höllinni og það er allt eins og það á að vera. Það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir leiknum. Allir leikmenn eru klárir að undanskildum Svein Andra sem verður frá næstu vikur," sagði Hrannar sem hefur náð að horfa vel á lið Baia Mare á undirbúningstímabilinu.

,,Þetta er þræl öflugt lið sem við verðum að bera mikla virðingu fyrir. Það urðu þjálfarabreytingar á liðinu í sumar svo nýi þjálfarinn er sennilega að koma með sínar áherslu breytingar inn í liðið. Það er því kannski erfitt að taka of mikið mark á þeim í undirbúningsleikjunum. Þetta eru leikmenn sem vilja skjóta fyrir utan en á sama tíma líka sterkir maður á mann," sagði Hrannar sem benti á að um síðustu helgi voru þeir í hörkuleik gegn Dinamo Bucuresti í 45 mínútur en síðar nefnda liðið sem leikur í Meistaradeildinni vann að lokum átta marka sigur í Meistarakeppninni í Rúmeníu.

,,Við þurfum auðvitað að hugsa fyrst og fremst um okkur og eiga toppleik bæði varnar og sóknarlega. Við höfum undirbúið okkur eins vel og hægt er fyrir þennan leik og síðustu dagar hafa farið í undirbúning fyrir leikinn á laugardaginn. Sigurinn gegn Fram í Meistarakeppni HSÍ var hluti af þeim undirbúningi og það var gott að vinna þann leik," sagði Hrannar að lokum.

Hér að neðan eru myndir sem áhugaljósmyndarinn Lýður Jónsson tók af æfingu hjá Stjörnunni í dag.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top