Helsta áskorun okkar verður að gera betur en í fyrra
Egill Bjarni Friðjónsson)

Halldór Jóhann Sigfússon (Egill Bjarni Friðjónsson)

Það styttist og styttist í komandi tímabil í Olís-deildum karla og kvenna en Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 3. september á meðan Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6. september.

Handkastið heldur áfram að hita upp fyrir Olís-deildirnar og hefur sent sömu sex spurningarnar á alla þjálfara deildarinnar í karla og kvenna flokki.

Nú er komið að því að sjá hvað þjálfari HK í Olís-deild karla Halldór Jóhann Sigfússon hafði segja.

Ertu ánægð/ur með hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið?

Ég er að mögu leyti bara mjög ánægður með undirbúninginn til þessa.  Við höfum reyndar verið ansi þunnskipaðir og eigum nokkra leikmenn inni sem sumir verða frá eitthvað inn í tímabilið og aðrir með lítilsháttar meiðsli.  Einnig hefur Ágúst Guðmundsson ekkert verið með okkur vegna landsliðsverkefnis.

Hvernig metur þú þær mannabreytingar sem hafa orðið á liðinu í sumar?

Við erum ánægðir með nýju leikmennina og tel ég þá falla vel inní hópinn og þann leikstíl sem við viljum spila.  Við teljum okkur vera að styrkja hópinn á milli ára þegar allir verða komnir til baka úr meiðslum og svo eru ungu leikmennirnir okkar árinu eldri og þeir munu fá meiri ábyrgð en á síðasta tímabili.

Hverjar telur þú vera helstu áskoranir þínar og liðsins í vetur?

Helsta áskorun okkar verður að gera betur en í fyrra þar sem HK fór í úrslitakeppni í fyrsta skiptið í 13 ár og það er ekkert sjálfgefið að fara í topp átta þetta tímabil þar sem deildin verður gríðarlega jöfn og mörg lið mjög svipuð að styrkleikum.

Hverjar eru væntingar þínar til tímabilsins?

Stóra markmiðið er úrslitakeppnin og fá fleiri stig en í fyrra, það er ekkert launungarmál.  Svo viljum við að okkar ungu leikmenn taki framförum á milli ára og taki við ábyrgðinni sem við teymið setjum á þá.

Ef þú mættir velja þér einn leikmann úr öðru liði í deildinni til að fá í þitt lið - Hver væri það og afhverju?

Það er erfitt að velja einhvern einn úr deildinni því hún er jöfn og því ætla ég ekki að nefna neinn því ég er sáttur við það lið sem ég hef í höndunum.

Hvaða lið telur þú að verði deildarmeistari í vetur?

Mér sýnist Valur vera með sterkasta og breiðasta hópinn eins og er og því held ég að þeir verði deildarmeistarar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top