Sigursteinn Arndal (Raggi Óla)
Sigursteinn Arndal hefur gert nýjan þriggja ára samning við handknattleiksdeild FH. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Sigursteinn hefur stýrt liði FH frá árinu 2019 og er því á leið inn í sitt sjöunda tímabil með félaginu. Undir hans stjórn varð FH meðal annars Íslands- og deildarmeistari árið 2024 og deildarmeistari árið 2025. Ljóst er að með þessum samningi gæti Sigursteinn Arndal stýrt liði FH í tíu tímabil í röð stýri hann liðinu út nýja samninginn. „Sigursteinn Arndal hefur náð góðum árangri með liðið og ég er spenntur að vinna áfram með honum að uppbyggingu liðsins. Markmiðið er skýrt, við ætlum að halda áfram að berjast um alla þá titla sem í boði eru,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson formaður handknattleiksdeildar FH við tilefnið. Deildarmeistarar FH frá síðasta tímabili tekur á móti Íslands- og bikarmeisturum Fram í Kaplakrika í 1.umferð Olís-deildar karla á fimmtudagskvöldið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.