Handboltadeila ársins: Snýr Dagur Sig aftur til Fuchse Berlín?
Anne-Christine POUJOULAT / AFP)

Dagur Sigurðsson (Anne-Christine POUJOULAT / AFP)

Eins og Handkastið greindi frá fyrr í dag hefur Stefan Kretzschmar gefið það út að hann hættir sem íþróttastjóri þýsku meistaranna í Fuchse Berlín eftir tímabilið. Samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.

Mikið fjaðrafok hefur verið í kringum Fucshe Berlín í sumar þrátt fyrir að hafa unnið þýsku deildina í fyrsta skipti í sögu félagsins og þá fór liðið alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar er liðið tapaði gegn Magdeburg í úrslitaleik keppninnar.

Fyrirsögnin hjá þýska miðlinum Sport Bild er einföld: Handboltadeila ársins

Bæði Stefan Kretzschmar og þjálfarinn, Jaron Siewert verða samningslausir næsta sumar og hefur Bob Hanning framkvæmdastjóri félagsins verið gagnrýndur í sumar að ekki hafi tekist að framlengja samninga við tvo af æðstu mönnum félagsins.

Sport Bild fjallar ítarlega um málið í dag enda er þetta ein af stærstu fréttum ársins í handboltaheiminum en Stefan Kretzschmar hefur verið við störf hjá Berlínarliðinu í rúmlega fimm ár.

Fer Sport Bild yfir tímalínuna síðustu daga allt frá fyrsta leik Fuchse Berlín í þýsku deildinni þar sem Bob Hanning og Stefan Kretzschmar höfðu autt sæti á milli sín á meðan leik stóð og þá er einnig talað um hegðun þeirra félaga á hinu árlegu Sport Bild viðurkenningarkvöldi þar sem þeir virtust ekki tala saman allt kvöldið. Var Bob Hanning spurður út í samningaviðræður félagsins við Siewert og þar sagði Bob Hanning að hann vonaðist eftir að geta gefið eitthvað frá sér á næstu dögum eða vikum.

Þýski miðillinn orðar Dag Sigurðsson þjálfara króatíska landsliðsins við starf íþróttastjóra Fuchse Berlín en Dagur þjálfaði félagið á árunum 2009-2015.

,,Í Berlín eru sögusagnir um Dag Sigurðsson sem eftir mann Kretzschmar," segir í frétt Sport Bild.

,,Frá haustinu 2024 hafa verið ítrekaðar sögusagnir um að þjálfari Lemgo og fyrrverandi heimsmeistari, Florian Kehrmann og austurríski leikstjórnandinn frá Lemgo, Lukas Hutecek hafi náð samkomulagi við Füchse frá og með næsta sumri. Fullyrðing sem hefur verið hafnað," segir í Sport Bild.

,,Nýjustu sögusagnirnar berast frá Skandinavíu. Annars vegar er sagt að Nicolej Krickau, sem var leystur undan samningi sínum í Flensburg, hafi þegar skrifað undir samning í Berlín sem hefst sumarið 2026.
Hins vegar er sagt að Dagur Sigurðsson sem var þjálfari Füchse frá 2009 til 2015, sé mögulegur eftirmaður Kretzschmar."

Handkastið mun fylgjast með þessu máli áfram og það yrði athyglisvert ef Dagur snýr aftur til Berlínar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top