Stefán Arnarson (Kristinn Steinn Traustason)
Það styttist og styttist í komandi tímabil í Olís-deildum karla og kvenna en Olís-deild karla hefst í kvöld á meðan Olís-deild kvenna hefst laugardaginn 6. september. Handkastið heldur áfram að hita upp fyrir Olís-deildirnar og hefur sent sömu sex spurningarnar á alla þjálfara deildarinnar í karla og kvenna flokki. Nú er komið að því að sjá hvað þjálfari Hauka í Olís-deild kvenna Stefán Arnarson hafði að segja. Ertu ánægð/ur með hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið? Undirbúningstímabilið hefur gengið ágætlega hjá okkur, við erum að vísu með heilbrigðisstarfsmenn sem eru í vaktavinnu sem hefur haft áhrif á æfingasókn, önnur er að vinna við að hjúkra börnum, hin er að hjálpa til að fjölga mannkyninu sem er mun mikilvægara en að spila handbolta. Við erum líka með starfsmann sem starfar hjá golfklúbbi og mér skilst að án hennar hefði ekkert Íslandsmót í golfi verið. Síðan hafa ástarmál leikmanna líka verið að trufla okkur þannig að við erum að glíma við allskonar verkefni. Við fórum í æfingaferð til Tenerife, ferðin gekk mjög vel og og það má segja að liðið lítur mun betur út en fyrir ferðina allavega að sögn Herberts starfsmann HSÍ. Hvernig metur þú þær mannabreytingar sem hafa orðið á liðinu í sumar? Við höfum misst nokkra leikmenn, Magga markmaður og Sara Katrín þrá að vera stjörnur. Begga og Rósa ákváðu að fara styrkja Fjölni og Elín Klara besti leikmaður Íslands í dag sem elskar IKEA fór til Svíþjóðar. Við höfum fengið góða leikmenn í staðin, Aníta Eik kom frá HK, Embla kom frá Stjörnunni og Jóhanna Margrét kom fljúgandi frá Svíþjóð, allt mjög góðir leikmenn. Það mun síðan koma í ljós hvernig þær munu standa sig. Sú bók er óskrifuð. Saga Sif er líka mætt á svæðið, hennar hlutverk er að að vera aðstoðar markmannsþjálfari. Hverjar telur þú vera helstu áskoranir þínar og liðsins í vetur? Helstu áskoranir eru að koma nýjum leikmönnum inn í leikskipulagið og láta nýja leikmenn og eldri leikmenn liðsins ná að vinna saman sem einheild. Hverjar eru væntingar þínar til tímabilsins? Haukar stefna á að vera keppa um titla og toppa á réttum tíma, að vísu er hvert tímabil eins og að skrifa nýja bók, bókin getur verið skemmtileg en síðan getur komið ritstífla og þá eru hlutirnir fljótir að breytast. Ef þú mættir velja þér einn leikmann úr öðru liði í deildinni til að fá í þitt lið - Hver væri það og afhverju? Sara Katrín hún er frábær í hóp, mikill skemmtikraftur og er einn af fáum leikmönnum sem getur breytt leikjum með sinni innkomu. Hvaða lið telur þú að verði deildarmeistari í vetur? Ef maður virðir sigurhefð, horfir á styrk liðanna og sigurlíkur fyrirfram þá verður Valur deildarmeistari.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.