Þórey Anna Ásgeirsdóttir (Baldur Þorgilsson)
Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um öruggan sjö marka sigur Vals á Haukum í Meistarakeppni HSÍ, 22-15 síðastliðinn laugardag en þar áttust við tvö bestu lið Olís-deildarinnar að margra mati. Benedikt Grétarsson var gestur í þættinum og hann segist hafa áhyggjur af því að Olís-deild kvenna í vetur gæti verið ójöfn. Haukaliðið sem varð bikarmeistari í fyrra missti í sumar sinn langbesta leikmann í Elínu Klöru Þorkelsdóttur og segir Benedikt að það gæti tekið tíma fyrir Hauka að aðlagast brotthvarfi hennar. ,,Þetta tekur allt sinn tíma, þær eru að missa alpha beta ómega deildarinnar. Þetta er leikmaður sem kom beint að einhverjum 15 mörkum í leik hjá þeim í fyrra og ef hún skoraði ekki eða átti stoðsendingu þá átti hún næst síðustu sendinguna." ,,Ég held því miður að deildin verði ójöfn í vetur. Ég held að Valur verði með algjöra yfirburði og síðan verða þetta þrjú lið fyrir aftan þær þar sem Haukar verða sennilega næst Val," sagði Benni Grétars. sem sér ekki fyrir sér að Valur tapi þremur leikjum í úrslitakeppninni í vor gegn sama liðinu. ,,Það er alveg hægt að vinna þetta Valslið, ég ætla ekki alveg að missa mig en að vinna þær þrisvar til að verða Íslandsmeistari. Akkúrat núna þá sé ég það ekki gerast." ,,Ég held að Valur verði með algjöra yfirburði í vetur," sagði Benedikt að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.