Darri Aronsson ((Bára Dröfn Kristinsdóttir)
Gunnar Magnússon þjálfari Hauka gerir ráð fyrir að Darri Aronsson leiki með Haukum í Olís-deildinni í vetur. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið eftir tap liðsins gegn Aftureldingu í 1.umferð Olís-deildarinnar á fimmtudagskvöldið. Darri Aronsson fór út í atvinnumennsku til Frakklands fyrir þremur árum síðan en lék aldrei leik erlendis vegna meiðsla sem hann glímdi við allan þann tíma. ÞRJÚ ÁR Í ATVINNUMENNSKU ÁN ÞESS AÐ SPILA LEIK ,,Við reiknum með að hann verði með. En hann er auðvitað að koma eftir þriggja ára meiðsli svo það er óvíst hvenær hann verður klár. Það verður að koma í ljós en auðvitað vonumst við eftir því að hann komist á flot en það er ekki alveg strax," sagði Gunnar í samtali við Handkastið. Darri er enn í endurhæfingu vegna meiðsla sinna en ef allt gengur að óskum má reikna með Darra í liði Hauka á næstu vikum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.