Þráinn Orri Jónsson (Kristinn Steinn Traustason)
Í nýjasta þætti Handkastsins var umræða um ákvörðun Hauka ár eftir ár að vera með opið í báðar stúkurnar á heimaleikjum sínum. Í 1.umferð Olís-deildarinnar á fimmtudagskvöld tóku Haukar á móti Aftureldingu í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Ágætis mæting var á leikinn og þá sérstaklega hjá gestunum úr Mosfellsbænum. Áhorfendur þeirra voru hinsvegar hvergi sýnilegir í útsendingu Sjónvarps Símans þar sem Haukar opna báðar stúkurnar á sínum heimaleikjum þrátt fyrir að nóg pláss sé í stúkunni á móti sjónvarpsvélunum. ,,Haukarnir verða að fara beina öllum áhorfendum yfir í eina stúku. Þetta er risastórt hús sem rúmar nær 2000 manns,” sagði Arnar Daði Arnarsson þáttastjórnandi Handkastsins og hélt áfram. ,,Körfuboltinn er alltaf að tala um einhver troðfull hús í 100 manna húsum svo erum við með 3000 manna hús og við erum með báðar stúkur opnar. Þetta lítur ekkert eðlilega illa út. Það heyrðist meira í Mosfellingum í sjónvarpinu en maður sá þá samt hvergi í sjónvarpinu." Stymmi klippari bætti við að FH-ingar lesi heldur betur salinn á heimaleikjum sínum en FH tók á móti Fram á sama tíma. ,,FH gerðu þetta þokkalega og drógu ekki einu sinni út allar stúkurnar heldur þéttu þeir áhorfendunum saman inn á miðjuna," sagði Stymmi. ,,Þetta er svo glórulaus nálgun hjá Haukunum. Ég skil að þeir voru að gera þetta í kringum 2004/2005 þegar það voru 5-600 fleiri manns á leikjunum en fyrir hvern er þetta? Covid er búið," sagði Arnar Daði að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.