Rea Barnabas (Sævar Jónasson)
Ungverski leikstjórnandinn, Rea Barnabas leikmaður Stjörnunnar tognaði á nára í sigri liðsins gegn FH síðastliðið föstudagskvöld. Rea hafði skorað þrjú mörk í leiknum áður en hann haltraði útaf um miðbik seinni hálfleiks og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Stjarnan vann leikinn með fimm mörkum 28-23 eftir að hafa verið 11-14 undir í hálfleik. Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar sagði síðan í viðtali við Handkastið eftir leik að um tognun á nára væri um að ræða. Rea er þar með sjötti leikmaður Stjörnunnar á meiðslalistanum en fyrir á meiðslalistanum eru þeir, Adam Thorstensen, Egill Magnússon, Tandri Már Konráðsson, Sveinn Andri Sveinsson og Jóhannes Björgvin. Stjarnan er með fjögur stig að loknum fjórum umferðum í Olís-deildinni en liðið mætir nýliðum Þórs á Akureyri í 5.umferðinni á fimmtudagskvöld.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.