Nejc Cehte (CHRISTIAN CHARISIUS / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þýsku meistarnir í Fuchse Berlín hafa fengið óvæntan liðstyrk á miðju tímabili því slóvenski landsliðsmaðurinn, Nejc Cehte hefur gengið í raðir félagsins frá Eurofarm Pelister í Norður-Makedóníu. Nejc Cehte þekkir vel til þjálfara Fuchse Berlín, Nicolej Krickau en tímabilið 2022/2023 lék Cehte undir stjórn Krickau hjá GOG þar sem liðið tveinnuna í Danmörku. Cehte er ætlað að fylla skarð Fabian Wiede sem varð á dögunum fyrir því óláni að slíta krossband og verður frá út tímabilið. Samningur Cehte við Fuchse Berlín er einungis til næsta sumars. „Það var mikilvægt fyrir okkur að finna leikmann sem uppfyllir kröfur okkar fullkomlega. Með Nejc Cehte höfum við fengið vinstri handar leikmann með reynslu úr þýsku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni,” sagði framkvæmdastjóri Berlínar, Bob Hanning. „Ég er himinlifandi að við gátum samið við Nejc. Við viljum þakka umboðsmanni hans og Eurofarm Pelister fyrir samstarfið. Nejc mun sérstaklega hjálpa okkur í vörninni og býr til meiri breidd í hópnum. Hann er sterkur varnarmaður og góð persóna, sem er mikilvægt þegar leikmaður kemur inn í lið á miðju tímabili,” sagði Krickau. „Ég hlakka mjög til að spila með þessu frábæra liði og fyrir þetta félag. Ég hlakka til framtíðarinnar og vil gjarnan hjálpa til við að ná markmiðum félagsins. Fyrir mig er þetta næsta skref í handboltaferli mínum,” sagði leikmaðurinn sjálfur. Cehte er reynslu mikill landsliðsmaður sem hefur leikið rúmlega 80 landsleiki fyrir Slóveníu en hann varð 33 ára í september. Hann lék með Hannover Burgdorf frá 2018-2022 áður en hann gekk í raðir GOG í Danmörku. Síðustu ár hefur hann leikið með Eurofarm Pelister í Norður-Makedóníu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.