Ítalía (Alessandro Tocco / NurPhoto via AFP)
Íslenska karlalandsliðið hefur leik á EM 16.janúar næstkomandi gegn Ítölum en Ísland er í riðli með Ítalíu, Póllandi og Ungverjum á Evrópumótinu sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Ítalarnir ætla að undirbúa sig fyrir mótið með tveimur æfingaleikjum gegn Færeyjum í Færeyjum, en þjóðirnar leika tvenna æfingaleiki 9. og 11. janúar sem fram fara í Þjóðarhöllinni í Færeyjum, við Tjarnir. Handkastið hafði áður greint frá því að íslenska landsliðið tekur þátt í fjögurra liða æfingamóti í París í aðdraganda EM en Ísland mætir þar Slóveníu 9.janúar. Sigurvegarnir úr þeim leik mæta síðan sigurvegurunum úr leik Frakklands og Austurríki á meðan þjóðirnar sem tapa fyrri leikjunum mætast innbyrgðis. Snorri Steinn Guðjónsson valdi á dögunum 35 manna hóp Íslands fyrir EM en hann gerir ráð fyrir því að velja 18 manna lokahóp sinn fyrir Evrópumótið 18.desember næstkomandi.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.