Ágúst Elí Björgvinsson (Petr David Josek / POOL / AFP)
Markvörðurinn, Ágúst Elí Björgvinsson er orðinn leikmaður KA en félagið tilkynnti þetta nú rétt í þessu. Samningur Ágústar við KA er til sumarsins 2027. KA tryggði sér áfram í undanúrslit Powerade bikarsins með sigri á Fram í 8-liða úrslitum í kvöld. Var Ágúst Elí kynntur sem leikmaður KA strax eftir leik. Ágúst Elí hefur verið án félags eftir að hann rifti samningi sínum við danska félagið Ribe-Esbjerg fyrr á tímabilinu. Nú er ljóst að Ágúst Elí verður löglegur með KA í Olís-deild karla þegar deildin fer aftur af stað í byrjun febrúar eftir EM pásuna. Norski markvörðurinn, Nicolai Horntvedt Kristensen yfirgaf KA í sumar og fengu KA sér óreyndan markvörð frá Fjölni, Guðmund Helga Imsland í sumar en Bruno Bernat hefur staðið vaktina mest megnis í allan vetur. Nú er ljóst að Bruno Bernat fær alvöru samkeppni er Ágúst Elí mætir norður. Ágúst Elí sem er uppalinn í FH gekk í raðir Savehof sumarið 2018 og varð sænskur meistari með félaginu. Þaðan fór hann til Kolding sumarið 2020 áður en hann skipti yfir til Ribe-Esbjerg 2022. Í lok sumars fór hann síðan á lánssamningi yfir til Álaborgar og leysti þar af Niklas Landin sem gekk undir aðgerð. Ágúst Elí fékk engin tækifæri með Ribe-Esbjerg eftir veru sína hjá Álaborg og rifti samningi sínum við félagið í kjölfarið. KA er í 5.sæti Olís-deildarinnar með 18 stig eftir 15 umferðir en sjö umferðir eru eftir af deildinni áður en úrslitakeppnin hefst. KA komst ekki í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð en eru nú í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni undir stjórn Andra Snæs Stefánssonar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.