Adam Thorstensen (Egill Bjarni Friðjónsson)
Adam Thorstensen markvörður Stjörnunnar fór til Þýskalands fyrir jól og var þar á reynslu hjá þýska B-deildarliðinu, VFL Lubeck en liðið situr í 8.sæti deildarinnar um þessar mundir með 19 stig. Adam sem er fæddur árið 2002 hefur stefnt að því að fara út í atvinnumennsku og það gæti farið svo að hann yfirgefi Stjörnuna næsta sumar og haldi út í atvinnumennsku. Adam var samningslaus Stjörnunni eftir síðasta tímabil en gerði eins árs samning við félagið í sumar. Hann var orðaður við erlönd félög í sumar en ekkert varð úr því. ,,Þeir höfðu samband í byrjun desember þar sem þeir eru að leita af aðalmarkmanni fyrir næsta tímabil og vildu fá mig á nokkrar æfingar. Ég fékk að kynnast félaginu og bænum og á sama tíma fengu þeir að kynnast mér. Ég er ánægður með hvernig gekk á æfingunum,” sagði Adam í samtali við Handkastið. ,,Þetta er eitthvað sem ég gæti séð fyrir mér á næsta tímabili en sjáum hvað verður. Við höldum þessu allavega opnu,” sagði Adam einnig en hann missti af byrjun tímabilsins hjá Stjörnunni vegna höfuðmeiðsla. Hann hefur hinsvegar komið sterkur til baka í síðustu leikjum fyrir jólafrí. Stjarnan er í 8.sæti Olís-deildar karla með 10 stig að loknum 15 umferðum með jafn mörg stig og HK sem er í 9.sæti deildarinnar. Keppni í Olís-deild karla fer aftur af stað í byrjun febrúar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.